Bólusetningar

Mjög mikilvægt er að vera vel bólusettur þegar maður ferðast til útlanda, en þó skiptir máli hvert förinni er heitið, t.d. eru margir smitsjúkdómar landlægir í suðlægum löndum, einkum í hitabeltinu. Það sama á ekki við um Vesturlönd og er sjaldnast þörf á sérstökum bólusetningum þegar ferðast er til Norðurlandanna, Suður-Evrópu, Kanaríeyja, Madeira, Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Japan.

Erfitt er að gefa einhlítar ráðleggingar um bólusetningar ferðamanna en það sem skiptir máli er:

  • Til hvaða lands eða landssvæðis er ferðast til.
  • Hversu lengi á að dvelja í landinu og við hvaða aðstæður.
  • Hversu algengir eru sjúkdómar sem bólusett er gegn á ferðasvæði viðkomandi.
  • Saga um fyrri bólusetningar.
  • Er viðkomandi er með langvarandi sjúkdóm eins og sykursýki, hjartasjúkdóm, astma, nýrnasjúkdóm.

Alltaf þarf að leita til læknis vegna ferða til hitabeltislanda, helst a.m.k. 2 mánuðum áður en lagt er í ferðina, til þess að hægt sé að framkvæma nauðsynlegar bólusetningar.

Sérstök ástæða er til að minna á endurnýjun bólusetningar gegn stífkrampa og mænusótt hafi það ekki verið gert fyrr. Mikilvægt er að huga að bólusetningum í tíma því lítið gagn er að bólusetningu sem gefin er brottfarardag.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um bólusetningu á göngudeild sóttvarna hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslustöðvum landsins og öðrum aðilum sem fengið hafa til þess leyfi sóttvarnalæknis s.s.Ferðavernd ehf í Læknasetrinu í Mjódd og Heilsuvernd í Glæsibæ.

Rétt er að minna ferðamenn á að pakka ekki nauðsynlegum lyfjum í ferðatöskur, frekar hafa þau í handfarangri svo framarlega sem að þau eru ekki í vökvaformi.

Sjá nánari upplýsingar á  vef embættis landlæknis.

,