Höf: Erlingur Jóhannsson.
Heilsa er flókið hugtak því þeir þættir sem hafa áhrif á hana eru fjölmargir og ólíkir. Hugtakið er mikið notað, t.d. í daglegu tali fólks og í fjölmiðlum. Þrátt fyrir algengi hugtaksins er skilningur á því oft margvíslegur, en alþjóðleg skilgreining á heilsu byggir á þremur megin þáttum, líkamlegum og félagslegum sem og andlegri líðan. Þættir sem tengjast líkamlegri líðan eru til dæmis hreyfing og þrek/þol, en félagsleg færni er dæmi um atriði sem tengist félgslegum þáttum svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægir þættir hugtaksins andleg líðan eru líkamsmynd, sjálfsálit og þunglyndi. Þessi þrjú hugtök mynda síðan saman það hugtak sem í daglegu talið er kallað andleg líðan. Andleg líðan er því nokkuð flókið hugtak og oft á tíðum getur verið erfitt fyrir hinn almenna leikmann að skilja breytingar á andlegri líðan og ólíkar birtingarmyndir hennar. Þess vegna er nauðsynlegt að skilgreina þessi þrjú hugtök og reyna að skilja hvaða áhrif hreyfing getur haft á þau og um leið andlega líðan.
Líkamsmynd er skilgreind sem skynjun, hugsanir og tilfinningar fyrir eigin líkama. Rannsóknir sýna að aldur virðist ekki hafa áhrif á líkamsmynd, heldur virðist hún haldast óbreytt út ævina og almennt virðast konur vera með verri líkamsmynd heldur en karlar.
Sjálfsálit er skilgreint sem mat á sjálfinu sem birtist í því hvernig einstaklingur samþykkir og líkar við sjálfan sig. Rannsóknir sýna að sjálfsálit fólks þróast og breytist yfir lífsskeiðið, en talið er að börn hafi yfirleitt mikið sjálfsálit, það minnkar á unglingsárunum, vex í gegnum fullorðinsárin og minnkar svo aftur í ellinni. Á unglingsárunum er sjálfsálit stúlkna áberandi minna en drengja. Þeir sem hafa gott sjálfsálit á einu tímaskeiði eru líklegri til að hafa gott sjálfsálit áratugum síðar. Ýmislegt gæti áunnist með bættu sjálfsáliti, til dæmis hafa rannsóknir bent á að gott sjálfsálit dragi úr vandamálum af andlegum toga á meðal barna og unglinga. Einnig hafa langtímarannsóknir sýnt að lítið sjálfsálit á barnsaldri eykur líkur á sjálfsvígshugsunum snemma á fullorðinsárum.
Þunglyndi er mjög algengur geðsjúkdómur og er skilgreint sem stöðug depurð sem er þungbær og truflar daglegar athafnir. Á Íslandi þjást um 12 til 15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma en Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur það vera fjórða stærsta heilbrigðisvandamál heims.
Hreyfing og andleg líðan
Fjölmargar rannsóknir hafa á undanförnum árum skoðað samspil andlegrar líðan (líkamsmyndar, sjálfsálits og þunglyndis) og líkamslegs atgervis eins og hreyfingu meðal barna, unglinga sem og fullorðinna.
Í íslenskri langtímarannsókn, sem hefur skoðað þróun líkamsmyndar meðal ungmenna, sýna niðurstöður að hún hefur batnað á undanförnum árum. Það virðist einkenna þá sem hafa góða líkamsmynd að þeir hreyfa sig meira samanborið við þá sem hafa slæma líkamsmynd.
Fjölmargar rannsóknir hafa einnig skoðað samband sjálfsálits og hreyfingar og hafa flestar fundir fundið jákvæð tengsl þar á milli. Rannsókn frá Bandaríkjunum hefur sýnt að aukin hreyfing ungmenna spáði fyrir um aukið sjálfsálit þeirra seinna í lífinu.
Niðurstöður frá rannsóknum sýna að þunglyndi á meðal ungs fólks hefur aukist mikið á undanförnum árum og ein leið til að sporna við þeirri þróun er að fólk hreyfi sig reglulega og komist þannig í betra líkamlegt form. Má ætla að það eigi jafnt við um fólk á öllum aldri. Fjölmargar og flestar langtímarannsóknir benda til að lítil hreyfing spái fyrir um aukin þunglyndis einkenni og auk þess hafa rannsóknir sýnt fram á skýr tengsl hreyfingarleysis og aukinnar tíðni þunglyndis bæði hjá unglingum og fullorðnum. Samband þunglyndis og þreks/þols hefur einnig verið skoðað, en rannsóknir frá Bandaríkjunum og Evrópu hafa sýnt fram á neikvæð tengsl á milli þunglyndis og þreks á meðal barna og unglinga. Nýlegar langtímarannsóknir sýna einnig að lélegt þrek við 18 ára aldur eykur líkur á þunglyndis einkennum á fullorðins aldri.
Góð andleg heilsa
Lykillinn að góðri andlegri líðan er meðal annars að hreyfa sig reglulega og þá helst á hverjum degi. Í þessu samhengi er nægilegt að fylgja ráðleggingum um hreyfingu frá Embætti Landlæknis en þar er lagt til að börn og unglingar hreyfi sig minnst 60 mínútur á hverjum degi og fullorðnir eiga að hreyfia sig minnst 30 mín á hverjum degi. Allar tegundir hreyfingar telja með í þessu samhengi eins og göngutúrar, skokk, hjólreiðar, sund, o.s.fr.v.
Eringur Jóhannsson er prófessor við Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í íþrótta og heilsufræði, Menntavísindasviði.