Að horfast í augu við sjálfan sig

Höf: Ragnheiður Alfreðsdóttir

 Jákvæður lífsstíll snýst ekki bara um að bæta árum við lífið helduWoman Looking in Mirrorr lífi við árin. Við viljum njóta dagsins í dag og stefna að því að láta okkur líða vel, andlega, líkamlega, félagslega og fjárhagslega á morgun. Það krefst þess að við tökum sjálf ábyrgð á því hvernig lífsstíl við veljum okkur, stuðlum að því að láta okkur og þá sem eru í kringum okkur líða vel og gerum það sem við getum til að draga úr sjúkdómum morgundagsins. Það er til dæmis hægt að koma í veg fyrir um það bil einn þriðja allra krabbameina með heilbrigðum lífsstíl.

Þróun krabbameins tekur mismunandi langan tíma en
oftast mörg ár og jafnvel áratugi. Það er því í dag sem krabbameinið er að þróast sem ef til vill gefur einkenni eftir tíu ár með blæðingum frá ristli. Þó svo að krabbamein sé aðallega sjúkdómur hinna eldri þá er það frá unga aldri sem við eigum að stuðla að því að koma í veg fyrir að það nái að myndast. Það sleppur enginn því einn af hverjum þremur greinist með krabbamein um ævina og hinir tengjast á einhvern hátt þeim sem greinast.

Hvað er heilbrigður lífsstíll ?  Það er meðal annars að líða vel í eigin skinni að vinna að því að vera sáttur við sjálfan sig og gjörðir sínar ef til þess kæmi að við yrðum að kveðja þessa tilvist í dag. Að lifa heilbrigðum lífsstíl er vinna en það snýst um að hafa þá vinnu skemmtilega og auðvelda.

  • Stunda hreyfingu sem veitir ánægju og jafnvel sameina hreyfingu og samveru með vinum og vandamönnum. Ganga eða hlaupa í stórborg með áhöfninni, hjóla með fjölskyldunni eða spila golf með vinunum og taka stigana í stað þess að bíða eftir lyftunni. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á líkamsform, vöðvastyrk, andlega vellíðan, fólk nær sér fyrr eftir áföll, minnkar ótta og þunglyndi og eykur lífsgæði almennt.
  • Forgangsraða hvíld og svefni fram yfir óþarfa vökur yfir sjónvarpi eða við tölvuna. Takmarka koffindrykki (kaffi, te, kóla- og orkudrykki) sérstaklega klukkustundirnar fyrir svefn. Helmingunartími koffins er um fimm klukkustundir sem þýðir að fimm klukkustundum frá því að kaffið er drukkið er helmingur koffinins enn til staðar í líkamanum fimm klukkustundum seinna.
  • Að setja sér markmið um eigin kjörþyngd, ná henni og vera sáttur með þá þyngd því ofþyngd stuðlar að ótal sjúkdómum. Líkaminn leitar í þá þyngd sem hann hefur verið í svo það getur tekið hann um tvö ár að stilla sig inn á nýja þyngd. Það kallar á einbeittan vilja um að halda nýrri þyngd. Ein leið til þess er að minnka matarskammta. Það tekur um 15 mínútur að fá mettunartilfinningu svo skammta sér hóflega einu sinni á diskinn og bíða og sjá hvort sá skammtur nægir ekki og muna að hafa góðan skammt af grænmeti, ávöxtum, grófmeti og að drekka vel af vatni.
  • Veljum hvað við borðum og notum ekki líkamann sem ruslafötu. Maturinn sem er borðaður yfir daginn á að hjálpa líkamanum að endurnýja sig og gefa kraft. Sætmeti gefur ekkert vélarafl bara þyngir skrokkinn og getur stuðlað að sykursýki, veikum liðum, tannskemmdum og vanlíðan. Hugum að geymslu- og matreiðsluaðferðum og forðumst reykt, saltað, brennt og skemmdan mat.
  • Njótum þess að neyta matar úr fersku hráefni og minnkum neyslu á unnum matvörum. Tökum D-vítamín en það eflir ónæmiskerfið, ver gegn sýkingum, hefur áhrif á flest líffærakerfi líkamans og hjálpar þeim að starfa eðlilega. Neytum omega 3 fitsýrur en talið er að þær meðal annars hafi góð áhrif á ónæmiskerfið, geðheilsu og sjón og jákvæð áhrif á ýmsa sjúkdóma.
  • Hættum að reykja, það er aldrei of seint. Reykingar valda ekki bara lungnakrabbameini, reykingar er eins og að ryðverja ekki bílinn og keyra svo í saltbækli allan veturinn. Í munntóbaki eru um það bil 2500 efni og eru að minnsta kosti 28 þeirra þekktir krabbameinsvaldar auk þess sem munntóbak eykur hættuna á að deyja úr hjarta og æðasjúkdómum.
  • Stunda heilbrigt og öruggt kynlíf. Um 80% karla og kvenna fá HPV- veirusmit um ævina en það getur valdið meðal annars kynfæravörtum. Að stunda heilbrigt og öruggt kynlíf getur komið í veg fyrir að smitast af kynsjúkdómum og að fá krabbamein.
  • Verjum augun fyrir ofmikilli birtu með réttum sólgleraugum. Verjum okkur fyrir of mikilli sól og notum ekki sólarbekki til að forðast húðkrabbmein.
  • Hlustaðu á andlega og líkamlega líðan og gerðu eitthvað í því að bæta úr því sem þú heyrir og kannast ekki við eða ert ekki sátt/ur við.

Ragnheiður Alfreðsdóttir er hjúkrunarfræðingur, MSc.