Öryggi á ferð og flugi

Höf: Einar Júlíusson. 

Þegar lagt er af stað í ferðalag út í heim er eitt af því sem gott er að huga að, hvernig hægt er að auka öryggi sitt. Hér eru nokkur ráð sem hægt að nota til að auka öryggi á ferðalögum.

Flest þessara heilræða eiga alltaf við, en þó geta sum verið mikilvægari en önnur í mismunandi heimshlutum.

Mynd: Fit To Fly
Mynd: Fit To Fly

Kynntu þér neyðarsímanúmer

Kynntu þér neyðarsímanúmerið í því landi sem þú ert í og vistaðu það í símann þinn. Mörg Evrópulönd notast við sama neyðarnúmerið og t.d. er aðeins eitt númer sem gildir fyrir allt USA.

Fáðu þér ferða-/sjúkratryggingu

Gott er að vera með sjúkratryggingu ef upp koma slys eða veikindi á ferðalaginu. Fyrir Evrópubúa er gott að hafa Evrópska sjúkratryggingakortið, á Íslandi er hægt að sækja um hjá Sjúkratryggingum Íslands. sjá tengil hér. Það tekur u.þ.b. 10 daga að fá kortið og það staðfestir rétt íslenskra ferðamanna og námsmanna til heilbrigðisþjónustu í EES löndum. Flest tryggingafélög bjóða upp ferða- og sjúkratryggingar og má finna upplýsingar um þær á vefum tryggingarfélaganna.

Nauðsynlegar bólusetningar

Mjög mikilvægt er að hafa réttar bólusetningar fyrir það landssvæði sem verið er að ferðast til. Oft þarf að byrja bólusetningar nokkrum mánuðum áður en lagt er af stað og því mikilvægt að huga að bólusetningum töluvert áður en ferðin á að hefjast. Á vef landlæknis eru góðar upplýsingar um nauðsynlegar bólusetningar sjá tengil hér.

Hafðu nokkra daga lyfjaskammt í handfarangri

Hafðu lyfjaskammt fyrir nokkra daga í handfarnangri ef þú þarft að taka lyf daglega. Ferðatöskur geta týnst og þá er mikilvægt að hafa nokkra daga skammt af lyfjunum. Best er að hafa lyfin í upprunapakkningum svo að ekki fari á milli mála í tollskoðun hvaða lyf er um að ræða. Það er einnig gott að taka afrit af lyfjaumbúðum og senda sjálfum sér í tölvupósti ef þörf er á endurnýja lyfjaskammtinn.

Taktu afrit af mikilvægustu ferðaskjölunum

Mjög gott er að taka afrit af mikilvægustu ferðaskjölunum og senda sjálfum sér í tölvupósti. Þannig hefur maður aðgang af skjölunum úr tölvu ef eitthvað glatast. Helstu skjöl eru vegabréf, vegabréfsáritanir, visa, tryggingar o.fl. Einnig er gott að hafa afrit af lyfjaumbúðum fyrir nauðsynleg lyf.

Aðskildu kreditkort og lausafé

Þegar verið er á ferðalagi er gott ráð að geyma kreditkort á mismunandi stöðum. Ekki vera með þau öll í sama veski/tösku. Ef þú ert með lausafé þá er betra að geyma það á öðrum stað en kortin.

Geymdu seðlaveskið þitt á öruggum stað

Til þess að draga úr líkum á vasaþjófnaði þá skaltu geyma veskið þitt í vasa framan á, helst lokuðum vasa og best af öllu er að geyma peninga og kreditkort í innan á vasa eða í svo tilgerðum beltisveskjum sem maður setur um mittið á sé eða hengir um hálsinn á sér þannig að hægt er að geyma/fela innan klæða. Gott er að slíkt veski sé einnig vatnshelt. Það á alls ekki geyma veski í rassvasa.


Farðu varlega í að nota kreditkortið þitt á „internetcafe”

Tölvur á „internet” kaffihúsum geta haft hugbúnað sem geta lesið það sem slegið er inn í tölvuna, eins og notendanafn og lykilorð. Ef þú þarft nauðsynlega að nota kreditkortið/bankareikning í tölvunni þá er mælt með að opna mismunandi glugga þegar verið er að slá inn upplýsingar og slá inn á milli ranga stafi.

Aðgættu hvort hótelherbergið er tómt við komu og brottför

Þegar komið er inn á gisti/hótelherbergi þarf að aðgæta hvort einhver/eitthvað leynist inni í herberginu.
 Það hefur oft komið fyrir að fólk fær lykil af herbergi sem að öðrum hefur verið úthlutað áður. Þegar þú ferð, mundu þá líka að yfirfara allt til að vera viss um að ekkert sé skilið eftir.

Kynntu þér neyðarútganga á hótelum

Kynntu þér hvar næsti neyðarútgangur er. Ef upp kemur eldur er ekki víst að hægt sé að sjá mikið fyrir reyk svo gott er að átta sig á hvert á að fara ef upp kemur eldur. Í eldsvoða ætti alls ekki nota lyfturnar.

Ekki skilja eftir verðmæti á áberandi stað inni á hótelherbergjum

Verðmæti ætti ekki að skilja eftir á borðum í gisti/hótleherbergjum.  Á flestum hótelum/gistiheimilum er boðið upp á öryggishólf á herbergjum þar sem hægt er að geyma verðmæti þegar farið er út af herberginu.

Notaður miðann „ónáðið ekki ” eða „Do not disturb“

Ef þú vilt ekki að ræstingarfólk eða annað starfsfólk fari inn á hótelherbergið þitt þegar þú ert ekki þar þá er gott að hengja upp miðann „Do not disturb“ á hurðina. Sumir vilja einnig skilja sjónvarpið eftir á til að minnka líkur á að óviðkomandi fari inn á herbergið.


Taktu með þér heimilisfang og símanúmer hótelsins/gististaðarins

Gættu þess að hafa alltaf með þér miða með heimilisfangi og símanúmeri gististaðarins sem að þú gistir á, ef þú villist eða lendir í slysi. Upplagt að nota bréfsefni, umslög eða minnisblóð frá hótelinu ef boðið er upp á slíkt. Þegar börn eru með í för stingið miða frá hótelinum í vasa barnsins eða skrifið nafn og símanúmer sem hægt er að hringja í ef barnið verður viðskila við foreldra sína.

Ath. hér efst á síðunni er tengill á RoadID sem framleiðir ódýr armbönd þar sem hægt er að setja á nafn og heimilisfang viðkomandi og einnig nöfn nánustu aðstandenda og símanúmer. (senda einnig til Íslands)

Ekki skilja eigur þínar við þig og hafðu þær vel merktar

Þegar fólk sest niður á veitingastöðum eða í almenningssgörðum er mjög algengt er að það leggi frá sér eigur sínar, t.d hengi töskur á stóla eða leggja þær á gólfið/jörðina. Leggðu frekar töskuna þína í kjöltuna eða settu handfangið á henni utan um fótinn á þér. Merktu allar töskur/ferðatöskur vel, helst innan sem utan.

Athugaðu smáa letrið og réttindi kennara ef þú kaupir þér kennslu

Ef þú ætlar að kaupa þér kennslu t.d. í köfun eða einhverju öðru sem felur í sér áhættu, kannaðu réttindi kennarans og lestu vel smáa letrið í samningnum.

Ekki bera á þér verðmæti 

Með því að bera áberandi dýra skartgripi, úr eða myndavélar þá verður þú að meira skotmarki fyrir þjófa. Skildu dýru skartgripina og úrin eftir heima og settu myndavélina ofan í myndavélatöskuna á meðan þú ert ekki að nota hana.

Forðastu fáfarnar leiðir        

Forðastu að ganga fáfarnar götur og húsasund, sérstaklega á kvöldin og ef þú ert ein/einn á ferð.  Kynntu þér einnig hvort og hvaða staði ber að forðast. Oft veit starfsfólk hótela hvort eitthvað í nágrenninu beri að forðast.

Hafðu með þér lítinn ferðasjúkrakassa

Hér á vefnum FitToFly er hægt að finna leiðbeiningar um ferðasjúkrakassa. Til að skoða greinina smelltu hér.

Ekki klappa hundum eða köttum á götunni

Hundar og kettir á götunni geta verið smitaðir af sjúkdómum, t.d. hundaæði eða öðrum sjúkdómum sem geta auðveldlega smitast við snertingu.

Matur og drykkur

Það fer að sjálfsögðu eftir landsvæðum hversu varkár maður þarf að vera varðandi mat og drykk. En hér eru ágætar reglur sem ætti að fylgja sérstaklega þegar að komið er út fyrir hin svokölluðu „vesturlönd”.

  • Þvoðu ávallt hendurnar áðuur en matar er neytt eða hann matreiddur.
  • Athugaðu hvort óhætt er að neyta drykkjarvatns. Ef óvissa er um það þá þarf að sjóða vatnið fyrir neyslu í 3-5 mín eða sótthreinsa á annan hátt.
  • Í miklum hita getur líkaminn tapað mikið af vatni, gættu þess að drekka vel af vatni.
  • Ekki neyta hrás grænmetis og ávaxta með hýði, hrás skelfisks, íss eða ísmola. Forðastu ósoðinn eða illa soðinn mat. Kaldur eða endurhitaður matur getur verið varasamur. Nýsoðinn matur er öruggastur.

Verðu húðina fyrir sól og flugnabitum

Vertu ekki of lengi í sólinni ef þú kemst hjá því og notaðu ávallt sólarvörn, lágmark Spf 20.

Ef þú ert á malaríusvæðum, gættu þess að hylja húðina eftir að tekur að skyggja og notaður mýflugnafælandi smyrsl eða úða á hendur og andlit. Einnig er gott að nota moskítónet á nóttunni.

Einar Júlíusson er flugstjóri og lögreglumaður.