Að kveðja börnin

Höf: Margrét Pála Ólafsdóttir.

Bye_Bye_FlickrEkki á morgun, heldur hinn

Heimurinn hefur skroppið saman í hugum fullorðina. Við ferðumst á skammri stundu milli staða, landa og heimsálfa – um hundruðir og þúsundir kílómetra eða mílna – vegalengdir sem á mælikvarða formæðra okkar og forfeðra samsvar ljósárum. Sautjánda næsta mánaðar, í þriðju viku næsta árs, skreppa á ráðstefnur, fara í golfferð með klúbbnum, fundur erlendis og heim aftur. Ekki á morgun, heldur hinn.

Börn skilja ekki þetta tungutak og ekki þennan heim. Þau hafa hæfnina til að lifa fyrir augnablikið og hugsa hlutbundið, þ.e. þau vilja sjá, snerta, heyra og finna hér og nú hvað er um að vera. Þess vegna þurfa foreldrar að undirbúa barn sitt áður en annað eða bæði þessara elskuðustu mannvera í heimi „skreppa“ frá og halda svo sambandi heim út frá forsendum barnsins.

Yfirvofandi vitneskja barns um fjarveru foreldris getur valdið barni óróa eða kvíða, sér í lagi ef aðskilnaðarkvíða hefur gætt hjá barninu. Því er best að láta það ekki vita með of miklum fyrirvara heldur rétt svo hæfilegum svo það aðlagist tilhugsuninni. Innan við vika dugar flestum börnum og til að draga úr óróa barns er best að setja það vel inn í málin. Sýnið barni myndir frá staðnum sem á að heimsækja og prentið jafnvel út heimskort svo að foreldri og barn geti teiknað ferðaleiðina inn á kortið. Útskýrið tilgang ferðarinnar líka vel fyrir barninu svo að það skilji hvað þið eruð að gera í fjarverunni. Þá getur það ímyndað sér mömmuna á fundinum að segja fólkinu frá öllu þessu skemmtilega sem hún er að gera í vinnunni og því ekki að sýna barninu undirbúnu kynninguna sem mamman ætlar að nota. Þessi samræða og skoðun á myndum og öðrum skiljanlegum gögnum leyfir barninu líka að sjá pabbann fyrir sér í herberginu á hótelinu eða í lestinni á leiðarenda samkvæmt myndunum sem þau skoðuðu saman í tölvunni. Þeim mun meira sem barnið veit um ferðina, þeim mun betur mun því líða í fjarverunni. Vanmetið ekki barnið, það mun skilja ykkur ef þið veljið tungutak sem hæfir þroska þess og hafið sem mest sýnilegt fyrir það.

Svo er einfalt að hjálpa börnum að skilja betur tímann sem mun fara í ferðalagið. Snjallt er að setja upp einfalt dagatal þar sem barnið getur strikað yfir hvern dag að kvöldi eða á einhvern góðan hátt „séð“ hvern dag hverfa á fætur öðrum. Hið fjarverandi foreldri hefur svo samband heim, sendir myndir og lætur heyra af sér – helst á föstum tíma sem hentar vel fyrir dagstaktinn á heimilinu. Notið hyggjuvitið og hringið t.d. ekki heim fyrir svefninn sem getur truflað barnið og minnt á aðskilnaðinn.

Munið svo að að langar og átakanlegar kveðjustundir lengja ekki jákvæða samveru heldur teygja á aðskilnaði. Stuttar og glaðlegar kveðjur eru bestar því það hjálpar barninu að vita að þið eruð í lagi. Hið sama gildir um heimkomuna. Gerið heldur ekki of mikið úr henni því þá fær barnið á tilfinninguna að fjarvistin hafi verið meira mál en það skynjaði sjálft. Smágjöf er þó sjálfsagt að fylgi faðmlögum og kossum sem jákvæð og áþreifanleg staðfesting um staðina sem barnið vissi að pabbi eða mamma myndu heimsækja en hóf er best í öllu.

Góða ferð.

Margrét Pála Ólafsdóttir er höfundur Hjallastefnunnar sem er bæði hugmyndafræði fyrir leik- og grunnskóla svo og menntafyrirtæki sem rekur fjölda leik- og grunnskóla á Íslandi. Hún er menntuð sem leikskólakennari, með diploma í skólastjórnun, M.Ed. í uppeldis- og kennslufræðum og MBA.

Vefur Hjallastefnunnar