Fælni – óbærilegur ótti

 Höf: Dr. Eiríkur Örn Arnarson 

Mynd: Bantosh, Wikimedia
Mynd: Bantosh, Wikimedia

Fælni má skilgreina sem yfirþyrmandi ótta og ómótstæðilega hliðrun við fremur meinlausa hluti, atferli og aðstæður. Hinn fælni gerir sér fulla grein fyrir því að hann bregst við áreitunum á órökrænan hátt og að fælnin er ekki merki um sturlun (psychosis). Aðalvandinn við fælni er að hún þrengir athafnafrelsi fólks og beinir atferli í þröngan, fastskorðaðan farveg. Að auki brýtur fælni niður sjálfstraust.

Þegar fælni er rædd er litið á samspil hugsana, atferlis og líffræðilegra viðbragða fremur en eitt ákveðið viðbragð.

Hugrænu viðbrögðin einkennast af hugmyndum um neikvæðar afleiðingar þess sem tekist er á við. Hinum fælna finnst hann missa stjórn á sjálfum sér og óttast að hann geri sig að athlægi.

Hegðun endurspeglar viðbrögð við því sem við fælumst (flótti og hliðrun) s.s. jarðskjálfti, málhelti, stam, hlé milli orða, hæsi og titringur í rödd.

Helstu lífeðlislegu breytingarnar samfara fælniviðbrögðum eru að svitna, að roðna, hitatilfinningu, finna til aukins hjartsláttar, hjartsláttaróreglu, andnauðar, óreglulegs andadráttar, munnþurrks, verkja og sársauka og aukinnar vöðvaspennu.

Algengari en ætla mætti

Fælni er algengari en ætla mætti en að u.þ.b. einn af hverjum 10 Íslendingum á við fælni að etja. Hún dylst mörgum því hinn fælni ber líðan sína yfirleitt ekki á torg og aðeins nánustu ættingjar og vinir sem vita af vandanum.

Rannsókn sem gerð var í Vermont í Bandaríkjunum benti til að nær 8% einstaklinga væru fælnir og rúm 2% ættu við alvarlega fælni að stríða. Alvarleg fælni er skilgreind þannig að viðkomandi geti ekki sinnt daglegum störfum, svo sem vinnu eða heimilisverkum.

Fólk notar margar aðferðir til að draga úr kvíða, sem tengist fælni og algengast að menn hliðri sér hjá því að horfast í augu við áreiti sem þeir óttast, en einnig er hætt við aukinni notkun sefjandi efna, áfengis og róandi lyfja.

Þrátt fyrir að á seinni árum hafi árangursrík meðferð, s.s. hugræn atferlismeðferð [1] verið tiltæk hefur ekki nema lítill hluti hinna fælnu notið slíkrar meðferðar, sem að jafnaði skilar góðum bata eftir átta til tólf meðferðartíma.

Þrjár tegundir fælni

Yfirleitt er talað um þrjár tegundir fælni.

Algengust er afmörkuð fælni sem tengist ákveðnum aðstæðum, hlut eða sjúkdómi. Sem dæmi má nefna fælni við hunda, skordýr, sprautur, vatn, lyftur flugvélar, tannlækna, rakara og svo má lengi telja. Talið er að 5-15% fólks fari ekki til tannlæknis vegna hræðslu, jafnvel þó það leiði til mikilla óþæginda. Margir óttast læknismeðferð. Mest ber á hræðslu við sársauka, ótta við aðskilnað frá ástvinum og hræðslu við að missa stjórn á sér.

Annar flokkurinn nær til félagsfælni og er þá einkum átt við fælni við að tala á almannafæri, fælni við að vera innan um fólk, það að fælast samneyti við gagnstætt kyn, hræðsla við að borða eða drekka á veitingastöðum o.s.frv.[2]

Í þriðja flokknum er víðáttufælni sem er alvarlegasta birtingarmynd fælni og einkennist í senn af ótta við að vera á berangri og í margmenni.

Allir finna til ótta og kvíða öðru hvoru en fælni getur leitt til ofsakvíða, sem fólk kann engin tök á.[3] Verstur er ofsakvíðinn þegar hann kemur fyrirvaralaust án þess tengjast ákveðnum stað eða kringumstæðum og getur á nokkrum mánuðum gert heilbrigðan mann ósjálfbjarga; að fanga í fangelsi án rimla. Þó er algengt að hinn víðáttufælni geti ferðast í bíl um nánasta umhverfi sitt og bíllinn verði nokkurs konar heimili að heiman. Það sem fólk óttast mest er að kvíðinn hellist yfir þegar minnst varir, á berangri eða í margmenni, fjarri griðarstað eða öryggi heimilis og fjölskyldu. Þetta er kvíðinn sem heftir; óttinn við óttann.

Ein rannsókn leiddi í ljós að víðáttufælni hafði oftast búið um sig eftir meiri háttar breytingar á lífsháttum, svo sem að hafa átt við veikindi að stríða, orðið harmi sleginn vegna sorgar eða ánægjulegra viðburða s.s. giftingar eða að eignast barn o.s.frv.

Þegar menn finna fyrst til fælni og ofsakvíða hafa þeir gjarnan á tilfinningunni að þeir séu að ganga af göflunum eða að fá hjartaáfall og leita á slysadeild. Eftir fyrsta kastið er algengast að hinn fælni reyni að hliðra sér hjá aðstæðum sem vöktu ofangreind viðbrögð.

Svo hægt sé að tala um fælni verður óttinn að vera meiri en eðlilegur og raska ró einstaklings. Mikilsvert er að greina þá sem geta framkvæmt en gera ekki af einhverri ástæðu, frá hinum sem geta alls ekki horfst í augu við fælniáreiti og framkvæma ekki af þeirri ástæðu. Viðbrögðin eru þannig frávik frá venjulegum viðbrögðum í því menningarsamfélagi sem um ræðir.

Flughræðsla ótrúlega algeng [4]

Flug er algengur ferðamáti og niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna benda til þess að flughræðsla sé mun algengara vandamál en ætla mætti. Íslensk rannsókn leiddi í ljós að um fjórðungur kvenna og tæplega 9% karla fyndi oft eða alltaf fyrir ótta við að fljúga. Mest óttuðust menn flugtak og það að fljúga í ókyrru lofti og 18% áttu erfitt með að sætta sig við að geta ekki haft áhrif á aðstæður á meðan þeir voru á flugi. Í bandarískri rannsókn var talið að 10% farþega væru mjög hræddir við að fljúga og 20% haldnir vægari ótta. Í stórri sænskri rannsókn kom í ljós að 6% höfðu aldrei flogið vegna flughræðslu, 10% voru mjög hræddir í flugi og 15% fundu til sams konar ótta með því einu að hugsa um flugferð. Í stórri könnun SAS var m.a. spurt: „Finnur þú til óþæginda vegna flughræðslu?” Um 2% svöruðu alltaf jafn margir oft, 19% stundum og 77% aldrei. Af þeim sem aldrei sögðust vera flughræddir höfðu 8% áhuga á að taka þátt í námskeiði til að læra að draga úr flughræðslu.

Að horfast í augu við vandann

Það sem við gerum hefur áhrif á okkur sjálf og aðra. Afleiðingar þess að hræðast og hliðra sér við kringumstæðum eru margs konar. Það er algengt að nákomnir bregðist við með umburðarlyndi og samúð en þau viðbrögð geta verið óæskileg og átt sinn þátt í að halda fælni við.

Oft er það svo að við hliðrum okkur hjá aðstæðum án þess að óttast kringumstæðurnar sem slíkar, en óttumst miklu frekar viðbrögð okkar við aðstæðunum; óttumst við óttann.

Þegar fælni er tekin til meðferðar er ekki spurt hvers vegna, heldur er spurt:

  • Við hvaða aðstæður kemur fælnin fram?
  • Hvaða áhrif hefur fælnin á hegðun?
  • Hvaða afleiðingar hefur fælnin í för með sér?
  • Hvaða aðstæður forðast hinn fælni?
  • Hvernig bregst hinn fælni við aðstæðum, sem hann fælist?

Það getur verið jafnáhrifaríkt að leiða hugann að atburði og að lifa upp atvikið sjálft. Ef við höldum að áreiti sé hættulegt getum við fyllst hræðslu án þess að vera í hættu stödd.

Í einni rannsókn var sýnt fram á tengsl hugsana og kvíða. Myrkfælnum börnum var skipt í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn hafði yfir setninguna: „Ég er duglegur og get séð um mig í myrkrinu”. Annar hópurinn þuldi setninguna: „Það er gaman í myrkri og þá er hægt að gera margt skemmtilegt”. Þriðji hópurinn fór með ljóðlínuna: „Fljúga hvítu fiðrildin fyrir utan gluggann”. Börnin voru send inn í herbergi þar sem þau gátu haft stjórn á birtustigi.

Börnin í fyrsta hópnum gátu dvalist lengst og í mestri dimmu, þau sem höfðu aðra setninguna yfir komu næst en slakast stóðu þau sig sem fóru með ljóðlínuna í huganum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að hugsun ein hjálpi ekki, heldur skipti máli hver hugsunin er.

Hvernig nær fælni að búa um sig?

Ýmsar getgátur hafa verið settar fram um það hvernig fólk verði fælið og hafa einkum þrjár leiðir verið rannsakaðar: skilyrðing (58%), herminám (17%) og því að heyra um, lesa eða sjá ógnvænlega atburði eiga sér stað (10%). Flestir virðast þróa fælni með skilyrðingu en tæplega 20% með herminámi og 10% með því að verða vitnið að ógnvænlegum atburði, en 15% mundu ekki hvað olli því að hvernig fælnin hafði náð fótfestu.

Eins og að framan getur er algengast er að fælni lærist með skilyrðingu s.s. þegar einstaklingur festist í lyftu og bíður björgunar, þá magnast líffræðileg viðbrögð og óþægindi og óvissa um hvenær hann muni losna úr prísundinni. Síðar nægir hugsunin ein um að festast í lyftu til að endurvekja framangreind viðbrögð. Hræðslan við að fara í lyftu getur breiðst til tengdra aðstæðna svo sem að lokast inn í herbergi, ferðast með strætisvögnum, lestum og flugvélum.

Í öðru lagi getur fælni lærst með herminámi og má sem dæmi nefna móður sem fælist hunda eftir að hafa verið bitin á unga aldri og barn hennar tileinkar sér fælni móðurinnar.

Í þriðja lagi lærist fælni við ákveðna hluti sem bera fyrir augu í daglegu lífi, á netinu, í sjónvarpi eða bíói eða greint er frá að geti verið hættulegir.

Meðferð oftast árangursrík

Það er þversögn að fælni skuli geta lagast auðveldlega því að án meðhöndlunar getur hún læst mannsandann heljargreipum. Lengi var álitið að lítið væri hægt að gera til að takast á við fælni. Nýlegar rannsóknir hafa breytt þeirri skoðun og meðferð er fólgin í því að kenna fælna skjólstæðingnum viðeigandi viðbrögð við aðstæðum sem hann fælist, með öðrum orðum að horfast í augu við óttann í stað þess að hliðra sér hjá honum.

Fyrst eru auðveld verkefni tekin fyrir og í kjölfarið sífellt erfiðari verkefni og skjólstæðingnum kenndar aðferðir til að takast á við áleitnar hugsanir, atferli og lífeðlisleg viðbrögð, sem tengjast fælninni.

Þegar tekist hefur að ná valdi á auðveldustu kringumstæðum fikrar einstaklingurinn sig upp og tekst því næst á við aðstæður sem erfiðari eru og koll af kolli. Meðferð þarf ekki að vera tímafrek, en hana ætti einungis að framkvæma undir handleiðslu fagmanns, svo sem sálfræðings.

Rétt er að hafa í huga að fælni er vandamál sem hægt er að sigrast á og þarf ekki og á ekki að vera feimnismál.

Eiríkur Örn Arnarson, Ph.D., nam klíníska sálfræði í Bretlandi. Hann, er prófessor í sálfræði við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði á Landsspítala -Háskólasjúkrahúsi.

Greinin er birt hér í styttri útgáfu, hana má lesa í fullri lengd í vef Tímarits.                              Tengill á greinina í fullri lengd          

[1] Tengill á Vísindavefinn hér

[2] Tengill á Vísindavefinn hér

[3] Tengill á Vísindavefinn hér

[4] Sjá grein hér á vef Fit to Fly, um flughræðslu