Nesti í flug…ljúffengt, einfalt og gott í kroppinn

Höf: Margrét Leifsdóttir og Oddrún Helga Símonardóttir.

Ljúffengt, einfalt og gott í kroppinn

-Þegar við förum í flug þá erum við oft að fara í frí og þegar við förum í frí þá viljum við gera vel við okkur. Oft hefur það merkinguna að borða eitthvað sem okkur finnst mjööög gott á bragðið en við vitum að okkur líður ekkert mjög vel eftir að hafa borðað það. En er hægt að sameina þetta tvennt? Borða eitthvað sem okkur finnst mjööög gott og á sama tíma líða vel eftir að hafa borðað það?

Hér eru nokkrar hugmyndir að nesti fyrir flug, fyrir þá sem ekki vilja kaupa flugvélamat.  Það var haft að leiðarljósi að nestið væri bæði syndsamlega gott og líklegt að okkur myndi líða vel eftir að hafa borðað það.  Uppskriftirnar eru einfaldar, hollar, ljúffengar og flugvænar.

 

Tandoori kjúklingasalat með maríneruðum rauðlauk …tilvalið í ferðalagið

Nesti fyrir flug_Tandoorikjuklingasallat_2

Hráefni:

Klettasalat
.   ½ – 1 elduð kjúklingabringa á mann.  
Krydd á kjúklingabringuna: tandoori, paprikukrydd og gott kjúklingakrydd t.d. frá Pottagöldrum. 
Kirsuberjatómtar skornir í tvennt
. Væn skeið af fetaosti í hvert box
 – 1 msk maríneraður rauðlaukur (með lime og salti) í hvert box.

Aðferð:

1. Skerið niður rauðlauk í þunnar sneiðar, kreistið safa úr lime yfir og saltið. Leyfið þessu að liggja saman í nokkrar mínútur.

2. Skerið kjúklingabringur niður í litla bita og steikið á pönnu. (Ég nota kókosolíu til að steikja kjúklingabitana.)

3. Blandið öllu saman í góðu boxi og ekki gleyma að taka með ykkur gaffal 🙂

 

Tandoori Kjúklingavefja

Mynd: Margrét Leifsdóttir

 

Fyrir þá sem eru ekki sjúkir í salat er góð hugmynd að smella innihaldinu úr kjúklingasalatinu hér að ofan,  inn í vefju og pakka inn í bökunarpappír.

 

 

Gómsætur Chia grautur

chia grautur

Hráefni:

1 bolli möndlumjólk – 1/5 bolli Chia fræ – 1/4 tsk vanilluduft – nokkur hindber/bláber fersk eða frosin

Hátíðarútgáfa: fersk jarðaber og 70% lífrænt súkkulaði skorið í litla bita.

Aðferð:

1. Hellið mjólkinni í skál og bætið chia fræjunum og vanilluduftinu út í

2. Hrærið í af og til á meðan fræin eru að drekka í sig vökvann (ca. 15 mín).

3. Bætið ávöxtum saman við og njótið!

Möndlumjólk, uppskrift

1 dl möndlur, lagðar í bleyti í 8-12 klst. Vatnið sigtað frá, möndlurnar skolaðar.

3 – 4 dl vatn og 2 -3 döðlur. sett í blandara og blandað vel.

 

Smákökur

Tilvaldar sem nesti hvort sem það er í millilandaflug eða í lautarferð.

Mynd: Margrét Leifsdóttir

 

Hráefni:

100 g kókosolía (brædd) 1 dl kókospálmasykur
 – 1 egg – 
1 tsk vínsteinslyftiduft – 2 dl möndlumjöl – 
1 dl kókosmjöl – 
1/2 tsk salt – 
100g saxað dökkt súkkulaði, – 
1/2- 1 dl ristaðar heslihnetur eða sólblómafræ

 

Aðferð:

1. Bræðið kókosolíuna t.d. með því að setja rétt magn í glas eða krukku og setja það ofan í annað ílat með heitu vatni.

2. Saxið súkkulaðið.

3. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel saman.

4. Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið.

5. Bakið í 10-12 mín við 180°c

 

Sumarlegar sítrónukúlur

Próteinríkar og mettandi.

Nesti_fyrirflug_nammikulur

Hráefni:

1 dl mjúkar döðlur
 – 1 dl ristaðar möndlur – 
1 dl kasjúhnetur
- Rifin börkur af hálfri sítrónu
-Hrein vanilla á hnífsoddi
 – Örlítið salt – 
Kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr

Aðferð:

1. Byrjið á því að rista möndlur í ofni við 150°c í 10 mín.

2. Malið möndlur og kasjúhnetur.

3. Bætið vanilludufti, salti og sítrónubörk saman við.

4. Bætið döðlunum út í smátt og smátt.

5. Mótið litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli.

Þessi uppskrift er góður grunnur og alveg hægt að breyta henni eftir smekk og eftir því hvað er til í skápunum. Til dæmis er mjög gott að setja smá möndlusmjör og minnka döðlurnar á móti. Það má líka nota aðrar hentur t.d. valhnetur eða pekanhnetur. Einnig mætti minnka hneturnar og bæta við í staðinn kókosmjöli, sesamfræjum og mórberjum.

(Ef þið eruð með lífrænar þurrkaðar döðlur þarf að leggja þær í bleyti í 20 mín og jafnvel sjóða þær í nokkrar mínútur.)

Prófið að skipta sítrónuberkinum út fyrir appelsínubörk og þið eruð komin með appelsínukúlur 🙂

 

Ávextir, grænmeti og ber

Svo er alltaf gott að setja ber eða kirsuberjatómata í box eða brytja niður gúrku, gulrætur, epli eða aðra ávexti.

 

Margrét Leifsdóttir er heilsumarkþjálfi IIN og arkitekt.  Heimasíða Margrétar Leifs  og fésbókarsíða Margrétar Leifs. 

Oddrún Helga Símonardóttir er heilsumarkþjálfi IIN. Heimasíða Oddrúnar Helgu, Heilsumamman.is