Er hætta á blóðtappa í flugi?

Höf: Dr. Guðmundur Daníelsson

Flugferðir og blóðtappar, eru tengsl þar á milli?

Margir kannast við og hafa upplifað að vera með bjúg og óþægindi í fótum eftir langar flugferðir. Það svona tilheyrir að vera þreyttur og slæptur eftir langt flug sérstaklega þegar ferðast er á milli tímabelta. Yfirleitt er bjúgur sem við upplifum í fótum ekki merki um neinn alvarlegan sjúkdóm en getur þó verið fyrstu merki um blóðtappa í bláæðum. Tíðni blóðtappa tengdum flugferðum er svolítið á reiki. Í lok síðustu aldar varð nokkur vakning á fyrirbrigðinu í tengslum við sviplegt andlát ungrar konu sem var að koma af Ólympíuleikunum í Sidney. Hún fékk blóðtappa í fót sem síðan barst til lungna sem leiddi til dauða hennar skömmu eftir komu til Heathrow flugvallar eftir 11 tíma flugferð. Í kjölfar mikillar umræðu í fjölmiðlum um hættuna á blóðtappa í fótum eftir löng flug voru veittir styrkir til rannsókna á þessu fyrirbrigði. Gerðar voru fleiri rannsóknir og ein slík leiddi í ljós að blóðtappar væru algengir. Rannóknin var framkvæmd þannig að gerð var ómskoðun af bláæðum ganglima hjá einstaklingum sem voru að koma úr löngu flugi (yfir 6 tímar) og niðurstöður þeirrar rannsóknar gáfu til kynna að þetta væri talsvert algengt eða um 4%. Enginn af þeim hafði þó nokkur einkenni og einungis var um minniháttar blóðtappa í vöðvabláæðum að ræða. Síðari rannsóknir hafa sýnt að tíðnin er mun lægri.

Af hverju getur myndast blóðtappi í löngum flugum?

Hver er ástæðan að blóðtappi myndist á löngum flugleiðum og getum við gert eitthvað til að minnka líkur á myndun þeirra. Í flugi sitjum við kyrr um langan tíma, í sætum sem oft á tíðum bjóða ekki upp á hægt sé að hreyfa sig mikið og oft erfitt að teygja úr fótum. Oft var þetta tengt við plássleysið sem var meira áberandi í almennu farrými og því kallað, “coach class thrombosis”. Það hefur þó aldrei verið sýnt fram á að hættan sé meiri þar en í sætum þar sem pláss milli sæta er meiri og nafngiftin því röng. Algengt er að það myndist vökvaójafnvægi í líkamanum í löngum flugferðum, það verður vökvaskortur. Hugsanlegt er að loftþrýstingur sem er lægri í loftförum en á jörðu niðri geti haft neikvæð áhrif á storkukerfi líkamans.

Góð ráð

Til eru einföld en mjög áhrifarík ráð til að vinna gegn þessari hættu sem flugið skapar.

Í fyrsta lagi að vera reglulega á hreyfingu, fara á salernið eða í göngutúr eftir ganginum. Einnig er gott að gera fótaæfingar meðan setið er en við það að spenna kálfavöðvana þrýstist blóðið frá leggjum upp til hjarta. Þá er mælt með að drekka vatn til að forðast ofþornun og forðast neyslu áfengra drykkja og ekki nota svefnlyf. Teygjusokkur er að öllum líkindum einnig mikilvægur en þeir pressa saman bláæðakerfið og minnka þannig magn bláæðablóðs í fótum sem geta myndað blóðkekki.

Einkenni

Blóðtappi í fótum er oft einkennalaus. Fyrstu og einu einkenni geta verið að þeir losni og fljóti af stað til lungna sem er lífshættulegt sjúkdóms fyrirbrigði. Einstaklingar sem eru í mikilli áhættu að fá blóðtappa ætti að meðhöndla með blóðþynnandi lyfjum fyrir langar flugferðir. Þetta eru t.d þeir sem áður hafa fengið endurtekið blóðtappa eða hafa galla í storkukerfi sem eykur áhættuna á blóðtöppum. Það er gert með blóðþynnandi lyfjagjöf undir húð. Hvað er löng flugferð? Evrópuflug frá Islandi er líklega ekki mjög áhættusamt en flugferðir sem vara lengur en 8 tíma eru hættulegri. Áhyggjur stjórnenda flugfélaga var talsverð í kjölfar mikillar umræðu í fjölmiðlum og kom til tals hvort þau væru jafnvel skaðabótaskyld gagnvart farþegum sínum. Aloha Airlines sem flýgur frá vesturströnd Bandaríkjanna til Hawaii tók þetta alvarlega og veitti styrki til rannsókna á fyrirbærinu í upphafi 21 aldar. Niðurstöður þessara rannsókna bentu til að áhættan væri vissulega til staðar en væri lítil.

Samantekt

Samantekið má segja að hætta á myndun blóðtappa í fótum í tengslum við flugferðir er lítil. Áhættan er meiri ef flugtími er lengri en 8 klukkustundir. Gott er að gera fótaæfingar meðan á flugi stendur og standa upp úr sætinu af og til. Einnig ber að forðast ofþornun og því skynsamlegt að drekka vatn reglulega. Betra er að halda neyslu áfengra drykkja í hófi þar sem hún eykur vökvalosun. Í lengri flugferðum er ráðlegt að nota teygjusokka og hjá einstaklingum sem hafa sterka áhættuþætti fyrir myndun blóðtappa getur verið rétt að gefa blóðþynningu í sprautuformi fyrir flugtak. Þetta á sérstaklega við einstaklinga sem áður hafa fengið blóðtappa. Ekki er mælt sérstaklega með töku hjartamagnyls í forvarnarskyni þar sem það minnkar ekki líkur á blóðtappa í bláæðum.

Guðmundur Daníelsson er æðaskurðlæknir og rekur Reykvíska bláæðasetrið, RVC.