socgen.ucla.edu

Flughræðsla – þegar háloftin heilla ekki

Höf: Eiríkur Örn Arnarson.

Flughræðsla er ein algengasta tegund fælni. Erlendar kannanir sýna að fimmti til tíundi hver fullorðinn er flughræddur og mun fleirum er ekkert vel við þennan ferðamáta – þó að þeir láti sig hafa það. Konur eru frekar flughræddar en karlar og algengast er þetta ástand á aldrinum frá tvítugu til fertugs. Hefur það verið tengt ábyrgðartilfinningu foreldra sem eru á þessu aldurskeiði þegar börnin þurfa mest á þeim að halda. Flughrætt fólk er oft vel gefið, hefur náð árangri í lífinu og vill gera allt vel.

En hvað óttast þeir sem þjást af flughræðslu? Innilokunarkennd er ofarlega á blaði. Sumir kunna því illa að hafa ekki fulla stjórn á umhverfi sínu – eins og þeir telja sig hafa sem ökumenn. Aðrir eru lofthræddir eða vita ekki hvernig þeir geta brugðist við óvæntum aðstæðum á ókunnugum stað.

Fréttir af flugslysum magna ótta þeirra sem er illa við að fljúga og þeir loka augunum fyrir þeirri staðreynd að það er hundrað sinnum öruggara að ferðast með flugvél en bíl. Bandarískar tölur sýna að líkurnar á að deyja í innanlandsflugi eru einn á móti tíu milljónum og einn á móti fjörutíu milljónum í millilandaflugi. Flugvélar eru þannig gerðar að þær eiga að þola eldingar og geta lent þó einn eða fleiri hreyflar bili – svo lengi sem einn er í lagi. Litlar líkur er á að hjólbarðar springi í flugtaki eða lendingu, þeir eru samsettir úr meira en þrjátíu lögum.

Óeðlilegur ótti

Fátt er eðlilegra en óttinn. Hann er nauðsynlegur til að minna okkur á að fara gætilega yfir götu þar sem umferð er þung. Þar er hættan til staðar og ástæða til að fara varlega. Varla verður það sama sagt um þá einföldu athöfn að kaupa sér flugmiða. Engu að síður vekur hún ótta hjá þeim sem eru flughræddir. Þeir mikla fyrir sér hættuna sem þeir telja að fylgi í kjölfarið.

Þegar vélin er komin á loft hlustar flughrædda fólkið eftir öllum breytingum á vélarhljóði og einnig öðrum „dularfullum” hljóðum. Hér kemur að gagni að dreifa athyglinni með því að hlusta á góða tónlist.

Smávægileg ókyrrð í lofti vekur ugg, þótt ekkert sé eðlilegra þegar flogið er í gegnum veðra- og vindaskil. Ef flugstjórinn hefur sagt farþegunum fyrirfram frá ókyrrðinni rólegri röddu, dregur úr angistinni. Að ekki sé talað um að hann ræði í leiðinni um eitthvað annað, til dæmis góða veðrið á áfangastað

Flughræðsla er áunnin og í eðli sínu órökræn. Hinn fælni óttast ákveðnar aðstæður, reynir að hliðra sér hjá þeim og hefur tileinkað sér óæskileg viðbrögð.

Meðal einkenna eru, eins og í annari fælni, áköf líkamleg viðbrögð, það að finna fyrir miklum hjartslættti, erfileikum með öndun, svimatilfinningu, svita og óþægindum í kviðarholi. Viðbrögðin koma jafnvel fram við hugsanir sem tengjast fluginu.

Hvað er til ráða?

Undirbúðu flugið með því að kaupa farmiða í tæka tíð. Reyndu að pakka niður nokkru áður en þú ferð, en ekki á síðustu stundu. Hafðu með þér í handfarangri ipod, MP3 spilara, eða síma sem spilar tónlist, með slökunarefni og uppáhaldstónlist þinni. Allt sem auðveldar að beina athyglinni að öðru en eigin vanlíðan er af hinu góða. Því er gott að hafa með sér til dæmis tímarit, bók, spil, krossgátur, vasatafl, tölvuleiki, púsluspil eða jafnvel prjóna. Auk þess er æskilegt að hafa með sér tyggjó eða brjóstsykur til að nota fái maður hellu fyrir eyrun.

Reyndu að sofa vel daginn áður en þú ferð í flug. Æskilegt er að örva blóðrásina áður en haldið er út á flugvöll til að forðast neikvæð áhrif þes að halda lengi kyrru fyrir í sætinu á flugi. Hressileg gönguferð eða sturta geta gert mikið gagn. Gætið þes að ferðafötin séu þægileg og að þau þrengi ekki að líkamanum.

Standi ferðin skemur en tvo sólarhringa er hyggilegt að hafa úrið stillt á tímann heima. Vari ferðin lengur en tvo sólarhringa er best að stilla klukkuna á tímann á ákvörðunarstað. Verið úti við dagsbirtu og á fótum fram að háttatíma. Þannig má venjast þotusleni.

Í flugvélum er andrúmsloftið þurrt. Það getur leitt til vanlíðunar, nema þess sé gætt að drekka nægilega mikið af vatni eða gosdrykkjum til að mæta vökvatapi. Talið er hæfilegt að drekka sem svarar einni dós af gosi (33 cl) fyrir hverja klukkustund sem flogið er. Hyggilegt er að neita hvorki áfengis nér koffíns, sem getur örvað uppgufun úr líkamanum og hægt á líkamsviðbrögðum. Það bætir líðan að borða mat á flugi.

Séu tök á er gott að standa upp og hreyfa sig á meðan á flugi stendur eða gera einfaldar líkamsæfingar í sætinu með því að hreyfa liði. Hreyfingarnar örva blóðrás og létta álagi á liði og vöðva.

Æskilegt er að stunda slökun á leiðinni, t.d. með því að hlusta á slökunarleiðbeiningar. Á MP3 spilara eða öðru tæki.Slökunin hjálpar til við að draga úr álaginu við flugferðina og óþægindum sem fylgja löngum ferðalögum.

Að lokum má mæla með því að fara í heitt bað á ákvörðunarstað, að minnsta kosti fyrsta kvöldið, til að ná góðum svefni.

Nokkur lykilatriði           

Til að ná tökum á flughræðslunni er gott að átta sig á nokkrum atriðum þegar verið er að undirbúa flugið, komast um borð í flugvélina, meðan á flugi stendur og eftir að komið er heim úr flugi.

Við undirbúning flugsins verður hinn flughræddi að vera ákveðinn í að reyna sitt besta til að forðast óttann og mæta neikvæðri hugsun með rökrænni og jákvæðri afstöðu.

Á leið í flugvélina og við flugtak skiptir máli að ætla sér að slaka á og beina athygli hugans að einhverju sem stuðlað getur að því. Hafa má í huga að hræðslutilfinning og kvíði fjarar alltaf út.

Meðan á flugi stendur er rétt að vænta hins besta vegna þess að það eru hverfandi líkur á því að það sem fólk óttast mest eigi sér stað. Gott er að fylgjast með því sem er að gerast inni í vélinni og heita sjálfum sér því að takasr á við erfileika hvað sem á dynur. Ágætt er að hafa í huga að flugmennirnir hafi jafn mikinn áhuga á að komast á ákvörðunarstað og farþeganir.

Að loknu flugi má líta yfir farinn veg, leggja á minnið það sem vel tókst og lofa sjálfum sér að gera betur næst.

Þess má geta að hér á landi hafa verið haldin námskeið fyrir flughrætt fólk. Tveir sálfræðinemar unnu verkefni þar sem árangurinn var metinn. Haft var samband við þá sem setið höfðu námskeiðin og spurt um atferli tengt flugi þann tíma sem liðinn var frá því námskeiðinu lauk. Kannaður var árangur að námskeiðum, bæði til skamms tíma og lengri tíma. Reyndist hann mjög góður.

Slökunardiska frá Eiríki Erni er hægt að nálgast hjá Lækninga- og sálfræðistofunni, Skipholti 50c og Systrasamlaginu, Suðurströnd 10, Seltjarnarnesi.

Eiríkur Örn Arnarson, Ph.D., er prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í klínískri sálfræði á Landspítala Íslands.

Birt með leyfi höfundar.