Wikimedia.org

Þurrt loft í flugi

Höf: Dr. Hannes Petersen

Nefið

Hlutverk nefsins.

Nefið er merkilegt fyrir margra hluta sakir og gerum við okkur fá grein fyrir mikilvægi þess í þágu vellíðunar og heilbrigðrar líkamsstarfsemi. Burtséð frá útlitinu þá tengjum við nefið kannski fyrst og fremst við lyktarskynið. Með því skynjum við umhverfi okkar, það gerir vart við hættur eins og reyk eða eitraðar gastegundir og skemmd, óæt matvæli. Góð matarlykt vekur aftur á móti upp vellíðan, er lystaukandi hvati næringarnáms og setur af stað meltingu. Lyktarminnið gerir okkur kleift að aðgreina blæbrigði árstíða og staða sem voru okkur áður gleymdir svo ekki sé minnst á að greina tegundir mismunandi léttvína. Nefið hefur einnig hlutverki að gegna í tali og söng, en hljómun um nefhol ljáir orðum merkingu og öll höfum við heyrt hvernig einstaklingar hljóma sem eru kvefaðir. Mikilvægasta hlutverk nefsins lætur ekki mikið yfir sér, en það er að hámarka hreinlæti og gæði innandaðs lofts og búa þannig í haginn fyrir neðri öndunarveg þ.e. barka og lungu. Nefslímhúðin, þekjan sem klæðir nefholið að innan, og líffæri inni í nefholinu, sem kallast nefskeljar sjá um þetta mikilvæga verk.

Starf nefskelja og nefslímhúðar.

Við öndum inn í gegnum nefið um tuttugu þúsund lítrum af lofti á sólarhring, magn sem getur tvöfaldast við áreynslu. Þetta loft er af mismunandi gæðum og því mikilvægt að nefið sinni eftirfarandi.

  • Sía óhreinindi úr innönduðu lofti. Nefið hreinsar 95% allra agna sem eru stærri en 15 μ í þvermál, en nefskeljar í hliðlægum vegg hægri og vinstri nasar breyta loftstraumnum þannig að úr verða hvirfilstraumar, en í þeim þeytast agnirnar út frá miðju hvirfilsins og festast í slími nasa. Slímið eða horið eins og það er oft kallað er framleitt í slímfrumum þekjunnar. Það inniheldur bakteríudrepandi efni og getur framleiðsla þess numið allt að hálfum lítra á sólarhring. Það eru síðan bifhár á sérhæfðum frumum í nefslímhúðinni sem slá slíminu aftur í kok, þaðan sem því kyngt niður í maga. Bifháravirkni þekjunnar er kröftug, um þúsund slög á mínútu og þannig nær nefið að flytja slímið um hálfan sentimetra á mínútu.
  • Hita upp innandað loft. Við getum verið úti í tuttugu til þrjátíu gráðu frosti, dregið andann rólega í gegnum nefið og þegar loftið nær aftur í nefholið er það þrjátíu og sjö gráðu heitt. Þannig að á um tíu sentímetra leið sinni í gegnum nefið má hita loftið upp um sextíu til sjötíu gráður. Það eru nefskeljarnar sem sjá um þetta en að innan eru þær fléttaðar ríkulegu æðaneti hvers blóð hitar upp loftið.
  • Rakametta innandað loft. Að sama skapi getum við andað að okkur þurru lofti, með einungis eins til tveggja prósenta rakamettun og á sama stað aftur í nefkoki notið lofts sem er hundrað prósent rakamettað. Enn og aftur eru það nefskeljarnar sem sjá um verkið en blóðið í æðaneti nefskeljana leggja til rakann sem þarf.

Áverkar á nefslímhúð.

Þess ber að geta að það að anda lengi að sér mjög köldu lofti getur haft slæm áhrif á slímhúð nefsins. Nefskeljarnar þenjast út vegna hins aukna blóðflæðis en það aftur þrengir að loftstraumnum sem við skynjum sem nefstíflu. Blóðstraumnum fylgir einnig aukinn þrýstingur sem pressar út raka sem við skynjum sem nefrennsli. Bifhárin ná ekki að slá þessu aukna rakamagni aftur í nefkok og kuldadropar myndast sem við gjarnan sjúgum upp í nef svo þeir renni ekki niður á efrivör. Ástand þetta minnir á kvef, en batnar þegar inn í hlýju er komið.

Líta má á þurrt loft, sem er undir fimm prósent í rakamettun, sem áverka á nefslímhúðina. Blóðflæði til nefskeljanna eykst til muna, til að halda uppi eðlilegri rakamettun, en við það þenjast nefskeljarnar út og þrengja að loftstraumnum sem við skynjum sem nefstíflu. Langvarandi öndun í gegnum nef á svo þurru lofti getur að auki valdið breytingum á slímhúð nefsins sem líkist krónísku bólguástandi með aukinni íkomu hvítra blóðkorna, fækkun bifhærðra þekjufruma og fjölgun slímmyndandi fruma í slímhúðinni. Slímframleiðslan eykst og það eru færri bifhærðar frumur sem flytja slímið aftur í nefkok og enn og aftur fer að bera á nefrennsli sem þarf að sjúga upp í nef eða snýta. Þetta ástand og þessi breyting á slímhúðinni getur komið til þótt ekki séu til staðar hefðbundnir sýkingarvaldar eins og veirur og bakteríur. Þannig myndast hægt og rólega krónískt bólguástand í nefi án aðkomu sýkla. Þegar slímhúðin hefur í lengri tíma verið veikluð með þessu þurra lofti og krónískar bólgubreytingar orðnar staðreynd, þá er greiðari vegur fyrir sýkingarvalda að hreiðra um sig í slímhúðinni og valda áframhaldandi versnun og ónotum í formi krónískra sýkinga í hjánefsskútum (sínusum) með tilheyrandi verkjavandamálum í andliti og augum, nefrennsli og nefstíflum.

Flug.

Þurrt loft er einkennandi fyrir loftvist í flugvélum og kemur því illa niður á starfsólki um borð. Mikilvægt er fyrir þá sem vistast til lengri tíma í þannig umhverfi að huga vel að loftgæðum, til dæmis að væta slímhúðina með saltvatnsspreyi svo eitthvað sé nefnt. Að auki bætist við að eðli starfa í flugi felur í sér að oft er flogið úr mjög köldu umhverfi í mjög heitt, ferðast yfir marga lengdar- og breiddarbauga á heita staði, gjarnan dvalið stutt í loftkældum híbýlum áður en lagt er aftur af stað úr hita í kulda. Einnig eru loftgæði um borð þannig farþegar um borð bera með sér allskonar ilmefni, ryk og önnur óhreinindi sem berast um í farþegarýminu og auðveldlega geta ert nefslímhúð þeirra sem um borð vinna. Því er mjög mikilvægt fyrir áhafnarmeðlimi að huga vel að nefhreinlæti.

Ráðlegt er að allir þeir sem vinna um borð í loftförum eigi nefskolskönnur sem blanda má í saltvatn til nefþvottar, tvisvar til þrisvar á dag. Þetta þarf að vera jafn venjubundið og tannburstun kvölds og morgna. Mikilvægt er að hafa á sér saltvatn sem úða má í nef að vild, snýta sér síðan eða draga saltlausnina aftur í kok og kyngja, en allt þetta stuðlar að auknu hreinlæti í nefinu. Séu til staðar krónískar bólgubreytingar er mikilvægt að leita til læknis og fá sértækari hjálp í formi lyfja en benda má á að staðbundin notkun steralyfja í nef getur hjálpað til muna. Sé komið í slíkt óefni að lyf hjálpi ekki má oft laga og bæta með einföldum aðgerðum sem kalla á aðkomu sérfræðinga.

Hannes Petersen, sérfræðingur  í háls- nef og eyrnalækningum, dósent við læknadeild HÍ og trúnaðarlæknir FÍA.