Ef til væri töfralyf

Höf: Ágústa Johnson    

 

 

Ef til væri lyf sem í litlum skömmtum kæmi í veg fyrir algenga lífshættulega sjúkdóma og drægi úr hættu á ótímabærum dauða, án allra aukaverkana, myndum við ekki öll taka þetta lyf daglega?

Ef sannað væri að lyfið myndi til dæmis gera eftirfarandi:

  • Minnka líkur á dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma og ákveðinna tegunda krabbameina.
  • Spilaði stórt hlutverk í að koma í veg fyrir áunna sykursýki, insúlínviðnám, gigt, beinþynningu, offitu og     of háan blóðþrýsting.
  • Bætti geðheilsu og ynni gegn þunglyndi.
  • Yki orku, sjálfsöryggi og kynvirkni.
  • Drægi úr líkum á vitsmunahrörnun og heilabilun.
  • Gæfi börnum endalausa uppsprettu orku til leikja og gleði, styrk og aukið sjálfstraust.

Lyf sem eykur ávinning með vænum reglulegum skömmtum. Allir gætu notað lyfið án þess að þurfa ávísun frá lækni og það myndi ekki kosta heilbrigðiskerfið krónu. Erum við að tala um lyf sem gæti valdið byltingu? Lyf sem gæti sparað heilbrigðiskerfinu gríðarlega fjármuni ár hvert og ef til vill lyft grettistaki í því að létta á buguðu kerfinu.

En bíðum hæg…ÞETTA LYF ER TIL og hefur í grundvallaratriðum verið til frá upphafi mannkyns. Á undanförnum árum hefur fjöldi rannsókna leitt í ljós ítrekað, sannanlega virkni þessa töfralyfs.

Er ekki vert að skoða aðeins nánar þetta undralyf sem vitaskuld ætti að vera mest ávísaða lyf í heimi? Fyrir efasemdarfólk þarf traustar sannanir fyrir virkni þess, réttilega, því hreinlega hljómar það of gott til að vera satt.

Niðurstöður glænýrrar rannsóknar, þeirrar stærstu á heimsvísu sem birt var 8. ágúst síðastliðnumí European Journal of Preventive Cardiology.

Niðurstöður samtals 17 rannsókna sem um 227.000 sjúklingar tóku þátt í, sýndu að aðeins lítill skammtur af lyfinu dró verulega úr hættu á ótímabærum dauða. Við hverja smá aukningu á „skammtinum“ urðu áhrifin enn meiri.Líklega er lesendum nú orðið ljóst um hvaða undralyf er hér að ræða, jú, það er hreyfing. Áhugaverðu fréttirnar eru þær að það er ekki nauðsynlegt að hamast, puða, strita og pollsvitna til að njóta ávinnings. Næstum allir, fólk á öllum aldri, í misgóðu líkamsástandi, getur hreyft sig svo það skili markverðum árangri. Það er eins einfalt og auðvelt líkt og að setja einn fót fram fyrir annan, skref fyrir skref, og margþættur ávinningur er ótrúlegur.

Nánast allir geta notið góðs af hreyfingu og jafnvel minni háttar hreyfing hefur gríðarlega jákvæð áhrif, sérstaklega þegar við eldumst. Rannsóknin stóra sýndi enn fremur fram á sterkar vísbendingar þess að kyrrsetulífsstíll geti stuðlað að hjartasjúkdómum og leitt til styttra lífs.
Sagt hefur verið að góð heilsa sé ekki bara spurning um heppni og oft er hægt að meðhöndla slæma heilsu án þess að gleypa töflur sem mögulega eru í raun aðeins plástur og geta framkallað slæmar aukaverkanir. Lífsstílssjúkdómar verða til, eins og heitið gefur til kynna, vegna lélegs lífsstíls, reykinga, slæms mataræðis og hreyfingarleysis.

Í gegnum tíðina hafa rannsóknir eftir rannsóknir sýnt að fólk sem hreyfir sig ekki er í margfalt meiri hættu á að deyja það ár en þeir sem hreyfa sig reglulega. Hættan á ótímabæru dauðsfalli af völdum hreyfingarleysis er talin þrisvar sinnum meiri en af skaðlegum áhrifum reykinga.

Forvarnir eru besta meðferðin við mörgum sjúkdómum og bæta lífsgæði til muna. Hreint og klárt má segja að lykillinn að heilbrigði og bættum lífsgæðum ævina út er hreyfing.

Tökum fulla ábyrgð á eigin heilsu, hreyfum okkur og þjálfum líkamann reglubundið, allt árið, alla ævi. Gerðu það besta sem þú getur fyrir heilsuna þína og aldrei hætta því. Það gerir það enginn fyrir þig.

Ágústa Johnson er framkvæmdastjóri Hreyfingar  (hreyfing.is)