Tengsl næringar og andlegs styrks

Höf: Elísa Viðarsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir

Næring og andleg heilsa er eitt stærsta viðfangsefni veraldar í dag. Við stýrum því oftast sjálf hvað við borðum og hvernig við hugsum og því er dýrmætt að eiga góða orku eða vopn í vopnabúrinu til þess að takast á við erfiðar aðstæður.

Fjölbreytt mataræði, í hæfilegu magni er gott fyrir líkama og sál. Óunninn matvæli eins og grænmeti, ávextir, fiskur,kjöt, kornmeti, baunir og linsur eru frábær uppspretta góðra næringarefna. Fjölbreytt fæða tryggir að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf til þess að stuðla að góðri heilsu og minnkar þannig líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Matur eða öllu heldur matmálstímar gegna líka mikilvægu félgslegu hlutverki og því mikilvægt að eiga í góðu og heilnæmu sambandi við mat, borða fjölbreytt hollt fæði, en einstöku sinnum leyfa sér að fara út fyrir rammann.

Líf flugfólks, vaktavinnufólks og  fólks sem þarf að ferðast mikið vegna vinnu,  getur verið frábrugðið lífi hins almenna borgara sem vinnur frá 8-16 virka daga. Flugfólk/ferðafólk og  vaktavinnufólk þarf samt að reyna að halda sig við reglulegar máltíðir og  lágmarka viðbættan sykur í fæðunni eins og kostur er. Mikilvækt er að reyna að halda rútínu eða reglu í frítímanum eins og hægt er og nota frítímann á jákvæðan og uppbyggilegan hátt til að hreyfa sig og hugsa um heilsuna.

Þegar fólk þarf að vakna eldsnemma á morgnanna gefst oft lítill tími til að næra sig. Jafnvel finnst fólki það knúið til að sleppa úr máltíðum yfir daginn, en borðar svo kannski í staðin stórar máltíð þegar tími gefst, oftar en ekki seint á kvöldin. Þetta er lýsing sem margir í á ferðalögum eða í vaktavinnu tengja vel við. Fjölbreytt fæða hjálpar til við að halda blóðsykrinum í jafnvægi sem skerpir einbeitingu og getur haft áhrif á viðbragð sem getur verið gagnlegt ef á reynir. Þar sem rakastig í flugi er lágt er nauðsynlegt fyrir áhöfnina að hafa vatn sem helsta svaladrykkinn og drekka vel af því og lágmarka sykraða drykki og kaffi.

NOKKUR GÓÐ RÁÐ VIÐ MATARÆÐI:

Hvað er þá hægt að gera til að ná að borða reglulega, fjölbreytta og næringarríka fæðu?

Skipuleggja fyrirfram: Gott er að skipuleggja tímann og reyna að grípa með sér holla og næringaríka fæðu ef líklegt er að ekki gefist tími til að næra sig. Það væri t.d. hægt að elda stærri kvöldmáltíð kvöldið fyrir flug og setja afganginn í box og taka með sér morguninn eftir.

Borða reglulega: Gott er að fá inn lítil og næringarrík millimál, það er auðvelt að skjótast í næsta sjálfssala og kaupa sér sykrað gos og snakk en betra er að ná sér í hollari kost í hnetum, ávöxtum eða mögrum jógúrtvörum sem dæmi. Þetta kemur í veg fyrir að við borðum of stórar máltíðir eða sækjumst í sykraðar matvörur.

Matarvenjur: Veljum gróft kornmeti í stað þess að borða fínt: hafra í stað sykraðs morgunkorns, gróft brauð, hrísgrjón og pasta. Veljum vatn í stað sykraða drykki

Borða helst 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag

Diskurinn: Frábær leið til þess að borða fjölbreytta fæðu er að skipta disknum upp í 3 hluta.

  1. Þriðjungur samanstendur af grænmeti og ávöxtum
  2. Þriðjungur af heilkornapasta, hýðishrísgrjónum, byggi, kartöflu eða grófu brauði
  3. Þriðjungur samanstendur af próteinríkum matvælum t.d. fisk, kjöti, eggjum, baunum eða linsum

Ef við venjum okkur á það að borða fjölbreytta og næringaríka fæðu 90% af tímanum, þá er alltaf pláss fyrir hin 10% sem eru ekki eins næringarík fyrir okkur og munum að það er enginn nema við sjálf sem stjórnar því hvað við borðum og hversu mikið.

ANDLEGUR STYRKUR OG FÆÐUVAL:

Því fylgir ábyrgð að vera í flugáhöfn og því þarf áhöfnin að hugsa vel um sig bæði andlega og líkamlega til þess að vera í sínu besta ,,formi“ í háloftunum.  Andlegur styrkur er eitthvað sem kemur okkur öllum við og hjálpar okkur að takast á við stress, streitu, mótlæti og áföll svo eitthvað sé nefnt. Ég held að við getum öll verið sammála um að óháð þekkingu og reynslu, þá geta aðstæður í flugstarfinu verið stressandi, við erum jú mannleg.

Á sama hátt og það þarf að þjálfa upp og viðhalda reglulega líkamlegum styrk þá þarf að þjálfa upp og viðhalda reglulega andlegum styrk. Við fæðumst ekki sterk hvort sem það er líkamlega eða andlega þó við séum vissulega misjafnlega mótækileg fyrir að þjálfa það upp.

Það eru fjórir þættir sem að eru mikilvægir til að byggja upp andlegan styrk. Vissulega eru fleiri þættir sem að geta einnig haft áhrif en hér verður lögð áhersla á þessa fjóra þætti. Þættirnir sem um ræðir eru stjórn, áskorun, skuldbinding og sjálfstraust.

  1. Stjórn. Við höfum stjórn á sumum hlutum í lífinu en öðrum ekki. Einn af þeim þáttum sem við getum náð stjórn á með ákveðnum aðferðum er hvernig við túlkum hugsanir og einbeita sér að því sem hægt er að hafa stjórn á frekar en því sem við höfum ekki stjórn, því það eykur lífsgæði okkar.  Sem dæmi má nefna samstarfsfólk í vinnu, þar er mikilvægt að tileinka sér jákvæðni gagnvart náunganum og þannig skapa gott andrúmsloft á vinnustaðnum.  Okkur hættir stundum til að einbeita okkur fullmikið að þeim hlutum sem við stjórnum ekki. Þetta þekkja íþróttamenn sem meiðast illa og einbeita sér að því að hugsa um það sem þeir missa af en það gefur þeim bara vonbrigði og biturleika sem getur þróaðist út í leiða og vonleysi. Betri árangur gefur að taka stjórn og einbeita sér að þeim hlutum sem hægt er að stjórna á jákvæðan hátt og þá skapar það meiri vellíðan á sál og líkama. 
  1. Áskorun. Það sem skiptir ekki síður máli þegar kemur að því að byggja upp eða bæta andlega styrk er áskorun. Það að takast á við ný og krefjandi verkefni getur oft verið erfitt. Flugfólk og fólk á ferð og flugi þarf oft að vera lengi fjarri fjölskyldu og vinum sem getur verið mikil áskorun og fórn. Sem dæmi má nefnda námsmenn sem hafa þurft að eyða nokkrum árum fjarri heimahögum til að fá loksins draumajobbið hjá íslensku fyrirtæki. Öll reynsla er góð reynsla ef maður þarf að vera tilbúinn að læra af mistökunum og taka það góða með sér áfram inn í framtíðina.
  1. Skuldbinding eða ábyrgð skiptir miklu máli þegar kemur að andlegum styrk. Það er mikilvægt að geta tekið ábyrgð þegar vel gengur en ekki síður þegar illa gengur. Við eigum það til að kenna okkur um þegar gerð eru mistök og gleyma að hrósa okkur þegar vel gengur. Hrós er mjög mikilvægt og ef það kemur ekki utan frá á vinnustað, þá þarf samstarfsfólk á vinnustað að gefa hvort öðru hrós. Skuldbindið ykkur því sem þið gerið, leggið ykkur fram við að gera vel og þá vitið líka að fengið hrós er verðskuldað. Eftir því sem maður tekur meiri ábyrgð á eigin gjörðum því styrkist maður og bætist.
  1. Sjálfstraust er þáttur sem ég held við getum öll verið sammála um að við getum eða viljum bæta í okkar fari. Einstaklingar sem eru með mikið sjálfstraust eiga það meðal annars sameiginlegt að einbeita sér frekar að því sem þeir hafa stjórn á en ekki því sem þeir hafa ekki stjórn á. Að sama skapi eru þeir sem að búa yfir sjálfstrausti líklegri til að túlka umheiminn sér í hag en óhag. Fyrir mér er það ekki vísir á gott sjálfstraust að gera lítið úr öðrum, hafa alltaf rétt fyrir sér eða gera grín á kostnað annarra. Þvert á móti. Túlkanir á umhverfi okkar, aðstæðum og því sem að er sagt við okkur skiptir máli. Það sem að ég gæti túlkað sem skammir frá yfirmanni gæti annar túlkað sem hvatningu til að gera betur. Hlutir eins og jákvætt sjálfstal, bænir, skrif og hugarþjálfun geta bætt sjálfstraust einstaklinga.

 

Allir þessir þættir stjórn, áskorun, skuldbinding og sjálfstraust geta hjálpað til þess að auka andlegan styrk. Vissulega eru til fleiri þættir sem skipta þarna máli en ef maður leggur stund á og ræktar þessa eiginleika hjá sjálfum sér þá  eru líkur á því að andlegur styrkur aukist. Þættirnir fjórir hafa vissulega áhrif á hvorn annna. Dæmi má nefna að ef einstaklingur hefur lagt stund á að efla sjálfstraust sitt með jákvæðu sjálfstali, þá er hann líklegri til að einbeita sér að þeim hlutum sem hann/hún getur stjórnað. Að sama skapi er sá sami líklegri til að taka að sér erfiðari eða flóknari verkefni í vinnu sem síðan eykur sjálfstraust viðkomandi. Það að geta hrósað sjálfum sér eða tekið ábyrgð á mistökum eflir síðan hina þættina þrjá þannig að allt vinnur þetta saman.

Ef þetta er dregið saman þá sést að það er algjörlega undir okkur komið hvernig við borðum og hvernig við túlkum hugsanir eða aðstæður. Það krefst mikils andlegs styrks að velja góðan og hollan mat og stundum þarf að synda á móti straumnum.

Það þarf að æfa sig í þessu og það tekur tíma. Á leiðinni munum við taka lélegar ákvarðanir þar sem við göngum strax í gegn um rúlluhurðina án þess að hugsa málið frekar, ekki láta lélegu ákvarðanirnar brjóta sig niður. Upp með höfuðið og áfram gakk og látum næstu ákvörðun vera betri og lærum af reynslunni.

Gangi ykkur vel

IG: @elisavidars, @mlv9