Höf: Helga María Guðmundsdóttir
Ónæmiskerfið er varnarkerfi líkamans gegn sýklum eins og sveppum, veirum og bakteríum, auk þess sem það verndar eigin frumur og líkamsstarfsemi.
Með því að styrkja ónæmiskerfið er líkaminn betur í stakk búinn til að takast á við utanaðkomandi sýkla. Það eru ákveðnir þættir sem veikla ónæmiskerfið sem við getum ekki komið í veg fyrir eins og aldur. Bóluefni getur komið í veg fyrir að við smitumst af ákveðnum sjúkdómum en ekki eru allar sýkingar sem gera boð á undan sér. Það er því gott að finna leiðir til að styrkja og efla ónæmiskerfið og þannig minnka líkur á því að sýklar nái bólfestu í líkama okkar.
En hvað styrkir ónæmiskerfið?
Svefn: Við þekkjum öll hvernig okkur líður ef við fáum ekki nægan svefn, við veljum mat sem hækkar sykurstuðulinn hratt, leitum frekar í koffín drykki, hreyfum okkur minna og erum alveg ómöguleg. Svefn styrkir ónæmiskerfið og því ættum við að passa upp á rútínuna okkar, hafa þægilegt hitastig í svefnherberginu og takmarka skjátíma á kvöldin. Þar sem við stjórnum ekki því hvenær við sofnum þá er gott ráð að vakna alltaf á sama tíma til að stilla líkamsklukkuna. Með því að vakna alltaf á sama tíma verður auðveldara að festa svefn á kvöldin.
Litríkur matseðil: Helstu vítamín og steinefni sem ónæmiskerfið þarf á að halda eru vítamín A, C, D, og E, en einnig eru steinefnin járn og zink mikilvægt til þess að ónæmiskerfið nái að viðhalda góðri virkni. Með því að borða fjölbreytta fæðu erum við að styrkja ónæmiskerfið. Borða hreina fæðu sem vex á trjánum og velja lífræn matvæli. Gott er að hafa liti á disknum og bæta við auka grænmeti eða ávöxtum við uppskriftina til að bæta við fjölbreytnina. Þar sem sólarljós er takmarkað hér á landi þurfum við að taka inn D-vítamín yfir vetrarmánuði og einnig þurfa sumar ungar konur að taka inn járn vegna blæðinga. Sumir taka inn reglulega fjölvítamín og lýsi sem getur verið ágætis vani. Einnig er gott ráð að drekka vel af vatni og takmarka viðbættan sykur og unnin matvæli.
Hreyfing: Aðeins 30 mínútur af rösklegri göngu á dag hjálpar okkur að styrkja ónæmiskerfið. Þetta er einfaldur og mikilvægur þáttur í að efla heilsuna okkar og getur einnig gefið okkur góðar minningar með fjölskyldu og vinum. Þessu ráði fylgir lítill kostnaður en mikill gróði. Aukin hreyfing eflir bæði líkama og sál og gerir það auðveldara fyrir einstaklinga að sofna á kvöldin. Ef einstaklingar vilja efla varnir líkamans enn meira er gott að bæta við styrktarþjálfun tvisvar í viku.
Streitustjórnun: Streita getur haft gríðarlega áhrif á ónæmiskerfið og veiklað varnir líkamans til muna. Því er gott að hafa í huga að forðast ádeilur eins og kostur er og skapa þægilegt og rólegt umhverfi. Virkja samverustundir með þeim sem lætur þér líða vel, deila tímanum með einstaklingum sem eru afslappandi og hafa jákvæð áhrif á innri líðan. Einnig er hjálplegt að draga úr áreiti t.d. með því að dempa ljósin, slökkva á símanum á kvöldin eða slökkva á óþarfa tilkynningum. Fá sér róandi te fyrir svefninn, lesa góða bók og njóta augnabliksins.
Takmarka reykingar og áfengisneyslu: Skaðsemi tóbaks- og áfengisneyslu er óumdeilanleg og neysla þess hefur mjög slæm áhrif á varnir líkamans. Langbest er að sleppa því að reykja og drekka áfengi eða takmarka neyslu eins og kostur er.
Vernda líkamann gegn sýkingum: Húðin gerir sýklum erfitt fyrir að komast inn í líkamann og slímhúðin hindrar frekari för þeirra. Ein mesta hættan á að sýklar komist inn í líkamann er af höndunum okkar, þ.e. við snertum mengaða hluti og fáum okkur síðan að borða og sýklar berast þannig inn í okkur. Handþvotti erum við búin að kynnast vel síðustu ár og er handþvottur ein áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir sýkingar. Gott er að þvo hendur t.d. eftir klósettferðir, eftir að við komum heim, eftir að við förum út með ruslið, fyrir matargerð og áður en við borðum. Einnig er gott að elda matinn vel og passa upp á geymsluaðferðir matvæla og hreinlæti.
Ónæmiskerfið er flókið og fjölbreytt kerfi, en þessar einföldu ráðleggingar geta stuðlað að betri líðan og minnkað líkur á sýkingum sem þarf að meðhöndla með læknisaðstoð. Það er hægt að byrja strax í dag að gera litlar breytingar sem eiga eftir að skila sér margfalt til baka. Með því að minnka neyslu viðbætts sykurs, bæta svefn, hreyfa sig reglulega, borða fjölbreytta fæðu, taka inn D-vítamín og minnka streitu ertu ekki aðeins að styrkja ónæmiskerfið heldur einnig að stuðla að lengra og heilsusamlegra lífi til frambúðar.
Helga María Guðmundsdóttir er með B.Sc. í hjúkrunarfræði, M.A. í fjölmiðlafræði og er í diplómanámi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.
Greinin birtist í Heilsu- og lífsstílsblaði Hagkaups, birt með leyfi höfundar