Kransæðasjúkdómar hjá flugmönnum

Höf: Dr. Atli Einarsson.   

Mynd: Biotrofix.com
Mynd: Biotrofix.com

Kransæðasjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma sem hrjá fólk og dánartíðni vegna þeirra á heimsvísu er há. Tíðni sjúkdómsins eykst með aldri og hann er fátíður hjá yngra fólki en þó er þekkt að ungt fólk fái sjúkdóminn og þá oftast þegar um marga áhættuþætti er að ræða. Helstu áhættuþættir eru ættarsaga þ.e einhver náinn ættingi hefur fengið sjúkdóminn fyrir 65 ára aldur, hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, reykingar og sykursýki. Það hafa orðið miklar framfarir í meðhöndlun sjúkdómsins á síðustu árum.

Það gilda ákveðnar reglur um kransæðasjúkdóm hjá flugmönnum og mikilvægt að flugmenn láti fluglækni vita ef þeir greinast.  Kransæðaþrengingar mega ekki fara yfir 30 % í vinstri höfuðstofni og upptökum vinstri kransæðar. Annarsstaðar mega þrengingar ekki fara yfir 50%  en þó mega slíkar þrengingar ekki vera nema á tveimur stöðum. Hafi flugmaður lagst inn á sjúkrahús vegna kransæðastíflu er hann frá vinnu í 6 mánuði. Að þeim tíma liðnum þarf að fara fram ýmsar rannsóknir til að meta ástand hjartans áður en hann kemst aftur í flug. Þær rannsóknir eru áreynslupróf og hjartaómun og stundum frekari rannsóknir t.d sólarhringshjartalínurit . Stundum eru settar tímabundnar eða varanlegar takmarkanir í heilbrigðisvottorð. Þeir sem fara í kransæðavíkkun eru frá í 6 mánuði m.a þar sem hætta á endurþrengingu er mest fyrstu mánuðina.  Það er gerð krafa um að ekki hafi orðið nein marktæk skerðing á starfsemi hjartavöðvans og eins og hjá öllum mikilvægt að enduropna sem fyrst kransæð sem hefur lokast.

Fjölmörg lyf eru notuð til að hægja á framgangi sjúkdómsins og oft þarf að nota nokkrar tegundir. Það eru lyf sem lækka blóðþrýsting, kólesteróllækkandi lyf og blóðþynnandi lyf. Þurfi flugmaður að fara á lyfjameðferð er almenna reglan sú að viðkomandi fljúgi ekki fyrstu 2-3 vikurnar til að sjá hvort lyfjameðferðin þolist vel. Einnig er rétt að benda á að ekki eru öll lyf samþykkt til notkunar hjá flugmönnum og rétt fyrir flugmann að sannreyna hvort lyf séu leyfð.

Það er mikilvægt fyrir flugmenn eins og aðra að þekkja sína áhættuþætti til að geta brugðist við. Ættarsaga á liggja fyrir í flestum tilfellum og einföld blóðprufa getur sagt fyrir um kólesteról og sykur. Blóðþrýstingsmælingu er einfalt að taka og reykingasaga er þekkt ef hún er til staðar. Það er hægt að setja sín gildi inn í ýmsar ahættureiknivélar sem finnast á netinu til að reikna út sína áhættu.

Einkenni kransæðasjúkdóms geta verið margvísleg. Klassísku einkennin eru brjóstverkir sem koma við áreynslu og hverfa í hvíld. Fólk lýsir verknum oft sem þyngslum eða sviðaverk sem getur leitt út í vi hendi en stundum upp í kjálka eða aftur í bak.  Stundum eru einkenni þó öðruvísi og í 20-30  % tilfella kransæðastíflu er um þögult hjartadrep að ræða þ.e að annaðhvort voru ekki nein einkenni eða einkenni sem viðkomandi tengdi ekki við kransæðastíflu. Einstaklingar sem eru með marga áhættuþætti og finna fyrir einhverjum slíkum einkennum geta leitað til síns heimilislæknis eða hjartalæknis sem geta þá metið hvort ástæða sé til frekari rannsókna.

Atli Einarsson M.D, AME, er fluglæknir, sérfræðingur í hjartasjúkdómum og starfar hjá Vinnuvernd ehf.