Starfstengd þreyta vaktavinnufólks

Höf: Ásta Kristín Gunnarsdóttir. 

Fjölmargir þættir geta haft áhrif á árverkni og hæfni starfsstétta svo sem eins og aðstæður til hvíldar fyrir vinnuvakt, fjölskylduaðstæður, vinnuumhverfi, heilsufar starfsmanna og viðhorf þeirra til starfsins.

Starfstengd þreyta og svefnskortur

Þrátt fyrir að starfstengda þreytu sé að finna í 7-45% starfsstétta sýna rannsóknir að þreyta er mismikil eftir eðli og umfangi starfsins. Rannsóknir hafa t.a.m. sýnt að næturvinna stuðlar að meiri þreytu en dagvinna. Starfsfólk sem sinnir næturvinnu sefur að meðaltali einni til fjórum  klukkustundum skemur í kjölfar næturvaktar en dagvinnufólk. Það stafar af því að eftir að næturvakt lýkur og tími er komin til að ganga til náða er birtustig umhverfis í mótsögn við dægursveiflu líkamans og hefur því truflandi áhrif á svefnlengd og svefngæði einstaklingsins. Einnig hefur aukinn hraði og áreiti í samfélaginu áhrif á svefnlengd og hvíldartíma, en rannsóknir hafa sýnt að svefntími almennings  hefur styst töluvert á undanförnum áratugum.

Afleiðingar svefnskorts

Erfiðleikar við að sofna og viðhalda svefni og svefnskortur eru meðal algengustu svefnvandamála mannkynsins. Talið er að 20-40% fullorðinna einstaklinga þjáist af svefnvandmálum. Ef svefnþörf er ekki fullnægt verður svokölluð „svefnskuld“ sem bæta þarf með lengri svefntíma. Þeir sem „skulda svefn“ bæta sér hann oftast á frídegi eða um helgar.  Sumir þola minni svefn en aðrir en ekki er mikið vitað um ástæður þess. Konur virðast þó þola svefnskort verr en karlar en  rannsóknir hafa sýnt að viðhorf til starfsins, tryggð starfsmanna við atvinnurekendur sína, frítími, þreyta, svefntruflanir og félags-og fjölskylduaðstæður skipti þar meginmáli. 

Afleiðingar svefnskortsins er minnkandi árverkni. Hún er mest að morgni eftir góðan nætursvefn en fer minnkandi yfir daginn og mælist minnst að nóttu til milli 04.00 og 07.00 að morgni. Seinnipart nætur er mest hætta á óhöppum og mistökum sökum svefnsskorts og þreytu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að mikil þreyta í kjölfar svefnskorts eða svefntruflana  (af ýmsum ástæðum)  lýsir sér á sama hátt og áfengisneysla eða inntaka slævandi lyfja. Eftir 17-19 klukkustunda vöku mælist þreyta eins og 0,5‰ áfengismagn sé í blóði. Til viðmiðunar er að ef áfengismagn í blóði ökumanns á Íslandi er hærra 0,2‰  þá er það refsivert. Þessi samlíking þreytu og áfengismagns í blóði hefur vakið fólk til umhugsunar um alvarleika þreytu hjá stéttum sem sinna ábyrgðarmiklum störfum.

Það ber að líta alvarlegum augum að starfsstéttir sem sinna óreglulegum og löngum vinnuvöktum eiga frekar á hættu að lenda í óhöppum en aðrar starfsstéttir. Mistök í starfi geta haft alvarlegar afleiðingar.

Hvað er til ráða?

Yfirmenn fyrirtækja verða að huga að skipulagninu vinnunnar. Það er best gert með því að starfsmenn séu hafðir með í ráðum þegar vaktir eru skipulagðar. Það eykur ábyrgð þeirra og vinnuframlag. Best er að raða vinnuvöktum eftir líkamsklukkunni, þannig að kvöldvakt taki við af morgunvakt og næturvakt við af kvöldvakt. Ef það er gert færast vinnuvaktir í takt við sólarrás en ekki gegn henni sem oft vill verða. 

Eitt besta ráðið gegn þreytu er hvíld en svefninn er besta aðferðin til þess að hvílast. Fjölmargir þættir geta komið í veg fyrir að starfsmaðurinn nái góðri hvíld. Má þar nefna fjölskylduaðstæður, sér í lagi ef ung börn eru á heimilinu, hávaða eða lélega aðstöðu til hvíldar þegar heim er komið, líkamleg líðan svo sem verkir eða áhyggjur og aðrar skyldur svo sem umönnun aldraðra foreldra. Síðast en ekki síst nám eða aukastarf sem getur komið í veg fyrir að starfsmaðurinn nái viðeigandi hvíld.  

Fræðsla um þreytu og svefn starfsmanna er mikilvæg því með henni má leysa mörg vandamál, fækka veikindadögum og koma í veg fyrir kulnun í starfi. Til þess að svo megi verða þarf gott og öflugt samstarf starfsmanna og vinnuveitenda þeirra.

Ásta Kristín Gunnarsdóttir er hjúkrunarfræðingur & flugfreyja, hún bloggar um flugheilsu, sjá bloggsíðu Ástu Kristínar.