Börn á ferð og flugi

Höf: Margrét Pála Ólafsdóttir. 

Mynd: Jökull Alfreð
Mynd: Jökull Alfreð

Sumarfríið, vetrarfríið, eða bara jólafríið og páskafríið. Einhver dulúð og kitlandi kennd fylgir þessum orðum, ekki síst ef fjölskyldan er að plana ferðalag saman. Vangaveltur yfir litríkum bæklingum með fjölskyldum í strandlífi í sól og sumri eða þeysandi niður brekkurnar í nýfallinni mjöll. Svo er byrjað telja dagana og safna farareyri í gagnsæ ílát – eða hvernig nú sem foreldrar velja að undirbúa ferðina.

Fullorðnir vita hvað ferðalag felur í sér. Þar með vita þeir að leiðin er löng, flugin þreytandi og oft erfitt að koma sér og öllum inn á leiðarenda. Þeir vita að þetta gjald þarf aða greiða til að ná dásemdunum á frístaðnum og eru reiðubúin að harka ferðalagið af sér. Börn hugleiða ekki þessa hlið því þau bíða bara eftir fjörinu á áfangastað. Þar með er komið að fararstjórninni sem er á hendi foreldris, foreldra eða annarra fullorðninna í ábyrgð fyrir börnunum.

Fararstjórinn þarf að undirbúa ferðalagið sjálft og hafa meðferðis væna fararstjóratösku til að hafa tiltæka hvenær sem þörf krefur, ég tala ekki um handfarangur sem hægt er að draga með sér til að hlífa þreyttum öxlum. Svo er gott að börn eða ungmenni hafi sína eigin smátösku eða bakpoka sem þau passa sjálf en hægt er að fá einfaldar útgáfur af þeim með hjólum. Þau þurfa að velja sjálf hvað þau taka með sér í ferðalagið og best er að takmarka sig við smáleikföng, bækur og rafræn skemmtitæki. Hafið svo allan farangur, bæði stóran og smáan, tilbúinn í góðum tíma svo ekki komi til streitu á síðustu stundu en streita vekur upp það versta í fari stórra sem smárra.

Flug frá Íslandi krefst þess oft að þreyttir foreldrar þurfi að rífa börn upp um miðja nótt sem er býsna erfitt. Lykilorðið er að gefa ykkur tíma til að vekja, klæða, gefa smáhressingu og koma öllum rólega af stað. Gæði samskiptanna eru á ábyrgð foreldranna en ekki barnanna þannig að hafið gleði ykkar og jákvæðni uppi við.

Á biðtíma á flugvöllum er hægt að beita ótal ráðum. Það má skipta liði þannig að einhver fullorðinn sé með ábyrgð á börnum meðan annar tékkar inn eða sækir farangur á áfangastað. Þá er hægt að hafa ofan af fyrir þeim og spjalla við þau. Takið líka tillit til þess að sum börn bregðast við spenningi og nýjum aðstæðum með undrun og jafnvel feimni og þá þarf traust fulloðinsfang. Önnur bregðast við með mikilli hreyfiþörf og hreyfing og smáhlaup er alls ekki bannað á flugstöðvum – ef friðarþörf annarra ferðalanga er virt. Margir gleyma að börn þurfa margar og smáar hressingar yfir daginn og þess vegna er best að vera með hæfilega aukabita og drykkjarfernur með sér í fararstjóratöskunni góðu. Svo finna börn ekki fyrir þorsta þótt svo að líkaminn sé í vökvaþörf eins og gerist í löngu flugi og í miklum hita. Einkennin birtast bara í pirringi og þess vegna þarf að hafa nóg vatn og aðra svaladrykki tiltæka og fara oft á salernið með barnið – smáhreyfing gerir gott.

Aðdráttarafl leikjatöskunnar og afþreyingar um borð í vélinni hverfur fljótt og þá er kúnstin að vera á undan barninu áður en leiði og þreyta skellur á því með neikvæðum afleiðingum fyrir bæði barn, foreldra og jafnvel alla ferðafélagana. Grípið þá í gömlu góðu orðaleikina eins og „Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér í gær“, „Fagur fiskur í sjó“ eða spurningaleiki.

Sem sagt; gefið börnum fulla athygli, bregðist við þörfum þeirra og munið að áfengisneysla og börn eiga ekki samleið í ferðalögum, hvorki hjá fararstjórum barnanna né flugstjórum í flugstjórnarklefanum.

 

Margrét Pála Ólafsdóttir er höfundur Hjallastefnunnar sem er bæði hugmyndafræði fyrir leik- og grunnskóla svo og menntafyrirtæki sem rekur fjölda leik- og grunnskóla á Íslandi. Hún er menntuð sem leikskólakennari, með diploma í skólastjórnun, M.Ed. í uppeldis- og kennslufræðum og MBA.