Bólga/bjúgur í fótum – þrepaþrýstings sokkar

Flugsokkafætur 1
Mynd: Bryndís Arnardóttir

Höf: Dr. Helgi H. Sigurðsson. 

Margir kannast við og hafa upplifað að vera með bjúg og óþægindi í fótum eftir langar flugferðir/ferðalög. Slík einkenni eru ekki endilega merki um sjúkdóm en algengt er að undirliggjandi bláæðalokuleki sé til staðar og verða þá einkennin oft meiri. Ytri teikn um slíkt er t.d. æðaslit og/eða æðahnútar.

Hvað er til ráða ?

Ef ekki er hægt að forðast langvarandi setu eða stöður og bjúgur og óþægindi myndast þrátt fyrir að standa upp og hreyfa sig reglulega, mæli ég með notkun þrepaþrýstings sokka (graduated compression stockings).

 

Hvernig virkar þrepaþrýstings sokkameðferð?

Er maður gengur, verður til skiptis samdráttur og slökun kálfavöðva sem virka sem dæla og þannig aðstoða við að koma súrefnissnauðu blóði og vessa frá vefjum ganglima aftur til hjartans og síðan til lungna o.s.frv. gegn kröftum aðráttarafls- og þyngdarlögmála.

Þrýstingssokkarnir virka sem einskonar auka lag af vöðvum sem að þrýsta saman þandar bláæðar og holrúm fótleggja, sérstaklega þegar kálfavöðvapumpan gætir ekki við, t.d. langvarandi setu eða stöður. Þannig má viðhalda eðlilegri blóðrás og vökvajafnvægi í fótleggjunum við ákveðnar aðstæður og sérstaklega ef að undirliggjandi vandi/tilhneiging er til staðar.

 

Hver er munurinn á svokölluðum „flug sokkum“ (compression stockings) og þrepaþrýstings sokkum (graduated compression stockings) ?

Stærsti munurinn er staðallinn og þrepaþrýstingur sem er mestur neðst í sokknum en minnkar eftir þvi sem ofar dregur og stuðlar þannig að eðlilegri streymisstefnu.

Sumar tegundir „flugsokka“ eru oftast með minni og eingöngu jafnþrýsting og geta verð ágætir til síns brúks en duga oft ekki ef að undirliggjandi vandi/tilhneiging er til staðar. Eins gera þeir lítið gagn og stundum ógagn ef stærðin er ekki rétt.

Þrepaþrýstings sokkarnir uppfylla staðalinn að vera a.m.k. Class 1 graduated compression stockings og eru afgreiddir eftir máli frá viðurkenndum söluaðila. Þannig er hægt að tryggja að einstaklingar fái sokka sem passa. Það dugar alls ekki að miða eingöngu út frá skóstærð því við erum öll mismunandi.

 

Hverjir gætu haft gagn af þrepaþrýstum sokkum?

  • Þeir sem verða að standa og/eða sitja í langan tíma á dag vegna starfs síns
  • Þeir sem ferðast og verða því að sitja lengi
  • Þungaðar konur sem hafa tilhneigingu til að fá bjúg
  • Þeir sem hafa sögu um blóðtappa (bláæðasega – DVT) og þeir sem af einhverjum öðrum ástæðum vilja fyrirbyggja slíka blóðtappa .
  • Þeir sem finna fyrir þrota í fótum í daglegu lífi
  • Þeir sem hafa æðahnúta og /eða æðaslit – verndar gegn bjúgmyndun og frekari myndun á hnútum og sliti.
  • Margar vandaðar tegundir eru á markaði t.d. Mediven, Sigvaris, Bauerfeind, Jobst og fleiri.

Mikilvægast er að nýta sér þjónustu þar sem sokkarnir eru afgreiddir eftir máli og um leið eru oftast veittar nytsamlegar ráðleggingar.

 

Helgi H. Sigurðsson MD, FRCSED(Gen), EBS-Vasc, skurðlæknir, æðaskurðlæknir

Klíníkin Ármúla 9, 108 Reykjavík, sími 519 7000.