Stattu oftar upp

Höf: Geirþrúður Alfreðsdóttir.

Í kjölfar flugslyss í frönsku ölpunum í vorið 2015 breyttu mörg flugfélög verklagi sínu varðandi umgengni við flugstjórnarklefann á þann veg að flugmaður má aldrei vera einn síns liðs í flugstjórnarklefanum.  Því þarf ávallt einhver þjónustuliði að koma inn í flugstjórnarklefann ef flugmaður þarf að bregða sér aftur fyrir hurð og vera þar uns hann/hún kemur aftur.

Þetta nýja verklag hefur ósjálfrátt valdið því að flugmenn standa sjaldnar upp en áður. Mikilvægi þess að standa reglulega upp hvort sem er á löngum eða stuttum flugum til að teygja úr sér og auka blóðstreymi, verður seint endurtekið of oft. Langvarandi setur í sömu stellingu geta valdið því að ákveðnir vöðvar styttast sem getur aftur valdið t.d. bakverkjum eða öðrum stoðkerfisvandamálum.

Það er samt ekki alltaf nauðsynlegt að yfirgefa flugstjórnarklefann til þess að teygja úr sér eða gera léttar æfingar. Þegar flugmaður situr í sætinu getur hann ýtt stólnum sínum aðeins aftur og gert léttar æfingar fyrir fætur, háls og hendur.  Einnig er mögulegt í mörgum flugstjórnarklefum að standa uppréttur fyrir aftan sætin og gera þar æfingar.

Hér eru sýndar nokkrar æfingar sem henta ágætlega til að teygja á, þegar staðið er upp:

Mynd 1. (Fittofly)
Mynd 1

 

Æfing 1:

Standið bein, beygið annan fótinn og lyftið honum þannig að þið tyllið ristinni t.d. á sæti fyrir aftan.  Fóturinn sem staðið er á, vísar aðeins inn á við og má vera aðeins boginn.  Spennið rassvöðva og þrýstið mjöðmum jafnt fram og teygið rólega á vöðvunum framan á lærum og á mjaðmasvæðinu. Haldið teygjunni í u.þ.b. 30-40 sek og skiptið síðan um fót. Sjá mynd 1.

 

 

Cockpit_teygja_aftanAlaerum
Mynd 2.

Æfing 2:

Standið bein, lyftið öðrum fætinum beinum t.d. upp á sæti fyrir framan. Hallið bolnum fram yfir fótinn með bakið beint svo teygjan komi í lærvöðvann aftan á fætinum. Haldið teygjunni í u.þ.b. 30-40 sek og skiptið síðan um fót. Sjá mynd 2.

 

Mynd 3
Mynd 3 (Fittofly)

Æfing 3:

Standið bein og lyftið öðrum fætinum bognum, leggið utanverðan fótinn (jarkann) d. upp í sæti fyrir framan og látið hællinn vera sem næst líkamanum en hnéð vísar út, styðið höndum við sætið og hallið síðan bolnum fram. Haldið teygjunni í u.þ.b. 30-40 sek og skiptið síðan um fót. Sjá mynd 3.

 

 

 

 

 

 

Fleiri æfingar sem hægt er að gera í sætinu má einnig finna á FitToFly.com. http://www.fittofly.com/aefingar-i-flugi/.

Geirþrúður Alfreðsdóttir er flugstjóri, íþróttakennari og ritstjóri vefsins Fit To Fly.