Flug, heyrn og óþægindi í eyrum

Höf. Dr. Einar Jón Einarsson.

Flestir þekkja þá tilfinningu að fá óþægindi í eyrun þegar flogið er. Margar ástæður geta legið þar að baki en sú helsta er að breyting verður á loftþrýstingi í mið- og ytra eyra.

Í þessum pistli verður fjallað um nokkur atriði sem geta valdið óþægindum í eyrum ásamt því að hafa áhrif á heyrn þegar flogið er. Einnig verður bent á leiðir til að draga úr slíkum óþægindum og til að verja heyrn viðkomandi.

Margir lýsa óþægindum í eyrum sem stíflu eða hellu og getur sú tilfinning valdið verulegum óþægindum. Mestar líkur á að upplifa slík einkenni eru í flugtaki og við lendingu, þar sem þrýstingsbreytingar í farþegarými geta verið miklar og hraðar vegna breytinga á flughæð. Hægt er að forðast þessi óþægindi og verjast áhrifum þrýstingsbreytinga á eyru á mismunandi hátt. Ein leið er að halda kokhlustinni opinni með því að tyggja tyggigúmmi í flugtaki og við lendingu.

Eyrað
Eyrað

Að fá hellu fyrir eyrun er sjaldan skaðlegt en getur valdið miklum óþægindum. Hávaði í flugi getur hins vegar verið skaðlegur eyrum og mögulega valdið heyrnarskerðingu. Ef setið er aftast í flugvél, getur hljóðstyrkur farið yfir 85 dB – hugsanlega allt að 100 dB en flugvélategund, sætastaðsetning og nálægð við mótora vélar hafa áhrif þar á. Samkvæmt viðmiðunarreglum sem gefnar eru út af Vinnueftirliti ríkisins er hámarks viðverutími í rými þar sem er hljóðstyrkur er 88 dB, fjórar klukkustundir. Á lengri flugleiðum er því gott að huga að heyrnarvörnum.

Rannsóknir hafa sýnt að farþegar sem eru í miklum umhverfishávaða hækka að meðaltali hljóðstyrkinn í heyrnartólum sínum um allt að 5 dB til að draga úr áhrifum umhverfishljóða. Dæmi um slíkt umhverfishljóð er barnsgrátur en hann getur náð allt að 115 dB. Í stað þess að hækka hljóðstyrk heyrnartóla er hægt að nota heyrnartappa/síur eða noise-canceling heyrnartól þegar hljóðstyrkur verður of mikill. Sú leið er mun betri til að verja heyrnina gegn umhverfishávaða.

Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að flug er ofarlega á lista þegar kemur að kvíða hjá einstaklingum með undirliggjandi heyrnarskerðingu eða eyrnarsuð ( Tinnitus). Þessi kvíði er í flestum tilfellum óþarfur en hann byggist á alhliða reynslu á óþægindum í eyrum í flugi.

Þó svo að farþegaflugvélar fljúgi í yfir 30.000 feta (9.1 km) hæð, er loftþrýstingi í farþegarými stjórnað sjálfvirkt þannig að þrýstingurinn fer sjaldnast yfir 6.500 fet (2 km). Mestu áhrif þessarar þrýstingsbreytinga eru á miðeyrað, þann hluta eyrans sem er bak við hljóðhimnuna og inniheldur litlu heyrnarbeinin. Hlutverk litlu heyrarnbeinanna er að flytja hljóðbylgjur til innra eyrans sem síðan breytir þeim í rafboð sem berast til heilans. Undir venjulegum kringumstæðum er loftþrýstingur í miðeyra sá sami og í umhverfinu. Loftið í miðeyranu er í stöðugri endurnýjun þar sem kokhlustin sem tengir kokið og miðeyrað, opnast og lokast í hvert skipti sem við kyngjum eða geyspum og hleypir þannig lofti upp í miðeyrað.

Eftir flugtak lækkar loftþrýstingur í farþegarými hægt og rólega. Þetta veldur sjaldnast óþægindum í eyrum þar sem loftþrýstingur í miðeyranu er tiltölulega hár, sem veldur því að örlítið loft lekur niður kokhlustina. Meiri líkur eru á að upplifa óþægindi þegar flugvélin byrjar að lækka flugið fyrir lendingu. Þá er loftþrýsingur í miðeyranu lægri en þrýstingurinn í farþegarýminu og kokhlustin á það til að lokast. Þetta veldur lágþrýstingi í miðeyranu svo hljóðhimnan pressast inn á við og getur þetta valdið töluverðum óþægindum. Hjá einstaklingum með undirliggjandi heyrnarnskerðingu t.d. vegna skaða á skynfrumum, getur viðbótar skerðing á heyrn vegna stíflu eða hellu, haft umtalsverð áhrif á talskilning viðkomandi.

Virkni kokhlustar er mjög breytileg milli einstaklinga og getur hún jafnvel verið breytileg hjá sama einstaklingi á mismunandi tímum. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  1. Ef sofið er í flugi er gott vakna um einni klukustund áður en vélin byrjar að lækka flugið fyrir lendingu. Opnun kokhlustarinnar er minni í svefni.
  2. Gott er að kyngja reglulega, t.d. með því að drekka litla sopa af vatni með stuttu millibili, jafnvel á 15-30 sekúndna fresti í flugtaki og lækkun til lendingar. Ef það virkar ekki getur verið gott að “hreinsa” eyrað með því að halda fyrir nefið með þumalfingri og vísifingri og blása varlega lofti með munninn lokaðan, án þess að hleypa loftinu út.
  3. Að tyggja og/eða sjúga sætindi eða hreyfa kjálkann getur verið gagnlegt þegar fundið er fyrir óþægindum í eyrum.
  4. Ef hægt er, forðast að fljúga með kvef. Við sýkingar í nefi og hálsi, bólgnar slímhúðin í kokhlustinni og meiri líkur eru á að hún stíflist. Ef einstaklingur neyðist til að fljúgja kvefaður, getur verið gott að nota nefdropa eða nefúða í samráði við lækni.

Mikill meirihluti þeirra sem þjáist af eyrnasuði hefur nær eðlilega virkni í innra eyra. Virkni miðeyrans er einnig oftast eðlileg, en virkni þess er hægt að láta mæla hjá lækni eða heyrnarfræðingi og tekur sú mæling mjög stuttan tíma. Ef einstaklingur með eyrnasuð upplifir að kokhlustin sé stífluð í tengslum við flug, getur viðkomandi einstaklingi fundist að eyrnarsuðið verði tímabundið sterkara, á sama hátt og gerist ef viðkomandi notar heyrnartappa. Með því að “hreinsa” eyrað með því að blása eins og útskýrt er hér að ofan verður eyrnarsuðið oftast eins og það var áður. Í sumum tilvikum hafa þrýsingsbreytingar áhrif á eyrnasuð. Þær geta haft áhrif á tíðni þess og einnig tímabundin áhrif á styrk suðsins sem getur þá bæði aukist og minnkað. Aðeins lítill hluti einstaklinga með eyrnasuð upplifir þessi áhrif og þegar þau verða, þá vara þau tímabundið.

Mynd: Worldwide Bose.com
Mynd: Worldwide Bose.com

Stöku sinnum getur orðið skyndileg þrýstingsminnkun í farþegarými. Þetta getur haft áhrif á innra eyrað. Það er afar sjaldgæft en getur valdið heyrnar- og jafnvægistruflunum. Ef óþægindi sem viðkomandi upplifir í eyranu í tengslum við flug eru ekki horfin eftir nokkrar klukkustundir er ráðlagt að hafa samband við lækni eða sérfræðing. Meðferð ber oftast mjög góðan árangur.

Oft eru rör sett í hljóðhimnuna sem hluti af meðferð á truflunum á starfsemi miðeyrans. Einnig geta meiðsl og sýkingar valdið því að gat myndast á hljóðhimnunni. Í báðum tilvikum eru í raun minni líkur á óþægindum í eyrunum en ef hljóðhimnan væri heil. Þetta kemur til vegna þess að þrýstingsbreytingar jafnast sjálfkrafa í gegnum hljóðhimnuna og einstaklingurinn er ekki háður því að kokhlustin virki eðlilega.

Sumum sem eru viðkvæmir fyrir hvers konar þrýstingsbreytingum finnst notkun heyrnartappa draga úr áhrifum þeirra. Til eru sérstakir flugtappar sem nálgast má í apótekum eða um borð í flugvélum. Þeir geta mildað áhrif skyndilegra þrýstingsbreytingar sem kunna að valda óþægindum.

Mörgum finnst hávaðinn í farþegarýminu mikill, sérstaklega ef þeir sitja aftarlega í vélinni. Sjúklingar með heyrnkvilla eða eyrnasuð eru oft viðkvæmari og finna jafnvel fyrir miklum óþægindum. Við slíkar aðstæður eru heyrnartappar mjög gagnlegir til að verja eyrun. Hins vegar finnst mörgum einstaklingum með eyrnasuð þeir vera lausir við eyrnasuðið vegna þess að hávaðinn í flugvélinni yfirgnæfir (maskerar) eyrnasuðið.

Þeir sem hafa nýlega gengist undir aðgerð á miðeyra eða eru á leið í slíka aðgerð, þurfa að ráðfæra sig við lækni áður en farið er í flug. Ef aðgerðin felst í því að setja rör á hljóðhimnuna, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fljúga. Aðrar aðgerðir sem annað hvort fela í sér viðgerð á hljóðhimnu eða aðgerðir eins og stapedectomy við otosclerosis (ístaðshersli), krefjast þess oftast að viðkomandi aðili forðist að fljúga í ákveðinn tíma. Mikilvægt er að ráðfæra sig við lækni eða sérfræðing í þessum tilfellum.

Einstaklingar með heyrnarkvilla, einkum aðilar með eyrnasuð, geta þjást af kvíða eða þunglyndi. Stundum getur tilhugsunin um langt flug valdið það miklum kvíða að viðkomandi á erfitt með að hugsa sér að leggja í slíkt ferðalag. Ef einstaklingur upplifir slíkan kvíða getur verið mjög hjálplegt að ræða málin við lækni, þar sem hann gæti mögulega skrifað upp á mild róandi lyf til að auðvelda ferðalagið.

Þótt margir þekki þá tilfinningu að upplifa óþægindi í eyrum og/eða áhrif á heyrn í tengslum við flug, þá telst það til undantekninga að þau séu þess eðlis að þau útiloki eða takmarki þann ferðamáta að ferðast með flugi.

Einar Jón Einarsson er doktor í heyrnarfræðum, aðjúnkt við Háskóla Íslands og eigandi Scandinavian Hearing.