Höf: Ragnheiður Ásta Guðnadóttir
Allir þekkja mikilvægi góðrar næringar og almennt er talið að holl næring og reglulegir matmálstímar hafi jákvæð áhrif á þætti eins og einbeitingu og úthald og til að koma í veg fyrir þreytu. Maturinn hefur þannig áhrif á andlega líðan sem og líkamlegt heilbrigði.
Til að starfa eðlilega þarf líkaminn mörg mismunandi næringarefni, sum þeirra gefa orku en önnur eru mikilvæg fyrir vöxt og viðhald líkamans. Flestum okkar dug
ir að borða fjölbreytta fæðu til að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast.
Fyrir flugmenn, sem þurfa að hafa úthald og halda einbeitingu á meðan á flugi stendur, getur mataræði bæði fyrir og á meðan á flugi stendur haft veruleg áhrif á einbeitingu, viðbrögð og líðan í flugi og að því loknu.
Rannsóknir hafa sýnt að það tekur lengri tíma að jafna sig á flugþreytu ef einstaklingur er kominn yfir miðjan aldur, er í slæmu líkamlegu formi og borðar óholla fæðu. Út frá þessu má álykta að til að minnka einkenni flugþreytu sé betra að vera í góðu líkamlegu ásigkomulagi og er hollt mataræði einn partur í því að halda góðri heilsu.
Vatnsdrykkja er mjög mikilvægur þáttur til að minnka einkenni flugþreytu og til að koma í veg fyrir önnur neikvæð áhrif sem vatnstap getur haft á líðan. Rakastig í flugvélum er oft í kringum 2-3% sem má jafnvel líkja við eyðimerkurloftslag. Þar sem vatnstapinu fylgir ekki tap á líkamssöltum finna menn minna fyrir þorsta, en svona þurrt loft hefur engu að síður þau áhrif að líkaminn þornar upp. Á löngum flugum er því mikilvægt að drekka mjög vel af vatn og er ágætis regla að drekka vel á klukkutíma fresti meðan á flugi stendur.
Æskilegt er samhliða vatnsdrykkjunni að takmarka kaffidrykkju þar sem koffín er vatnslosandi og eykur því aðeins á vökvatap líkamans. Margir nota kaffi til að skerpa á einbeitingunni og ef menn hafa þörf fyrir það í flugi þá er rétt að nota kaffi í þeim tilgangi en reyna að takmarka koffínneyslu annars.
Þegar ráðlagt er um mataræði er almennt mælt með því að borða regluleg og áhersla lögð á að ekki líði of langur tími milli máltíða. Ávallt er lögð áhersla á að borða morgunmat og ekki er ofsögum sagt að morgunmaturinn sé ein mikilvægasta máltíð dagsins. Þessar ráðleggingar ættu flugmenn að hafa í huga, bæði hvað varðar reglubundnar máltíðir og einnig um morgunmatinn. Morgunmaturinn skerpir athyglina og býr menn betur undir verkefni dagsins. Að morgni er blóðsykur lágur í kjölfar þess að ekkert hefur verið borðað í margar klukkustundir og eru ýmsar vísbendingar um að slíkt ástand hafi jafnvel slævandi áhrif á viðbrögð og einbeitingu. Rannsóknir hafa þar að auki sýnt að fæði þeirra sem borða morgunmat er almennt næringarríkara en þeirra sem sleppa þessari fyrstu máltíð dagsins.
Ef langur tími líður á milli þess sem eitthvað er borðað hefur það þessi sömu áhrif, þ.e. blóðsykur lækkar og menn finna fyrir þreytu og sleni. Almennt er mælt með að ekki líði lengri tími en 3-4 klst. milli mála. Það er því mikilvægt, einkum í lengri flugum, að hafa við hendina eitthvað hollt og næringarríkt til að grípa til ef þörf er á.
Að borða rétt meðan á flugi stendur getur verið vandasamt og mikilvægt að skipuleggja slíkt fyrirfram og taka með sér eitthvað sem auðvelt er að grípa til. Þetta gæti t.d. verið þurrkaðir eða ferskir ávextir, hnetur, heilhveitikex, samloka með áleggi, jógúrt eða skyrdrykki (passa upp á að velja þá sem innihalda minni sykur), orkustangir t.d. próteinstykki, ekki velja íþróttastangir sem innihalda nær eingöngu kolvetni.
Besta val fyrir morgunmat er að velja kolvetnaríkar fæðutegundir eins og gróf brauð, hafragraut, sykurlítið morgunkorn og jafnvel einhverja ávexti auk þess sem morgunmaturinn ætti að innihalda einhver prótein og fitu. Fyrir flug á öðrum tímum dagsins á það sama við, að velja frekar fæðutegundir sem eru kolvetnaríkar, frekar en fituríkar og reyna að sneiða framhjá matvælum sem innihalda sykur, eins og sælgæti eða gos, þar sem slík matvæli hækka blóðsykurinn hratt og í kjölfarið fylgir snögg blóðsykurslækkun með þeim neikvæðu áhrifum sem lýst er hér að framan. Einnig er skynsamlegt að forðast stórar, orkuríkar máltíðir fyrir flug þar sem slíkum máltíðum fylgir jafnvel slen og þreyta þar sem mikil orka fer í að melta fæðuna.
Eftir lengri flug er einnig æskilegt að passa upp á vökvainntöku, halda áfram að drekka vatn og borða hæfilega stórar máltíðir. Ekki velja það sem er þungt í maga og tormelt, sérstaklega ef við tekur hvíldartími og jafnvel stutt í næsta flug. Stór og þung máltíð sem er borðuð stutt fyrir svefn getur haft neikvæð áhrif á svefngæði og þar af leiðandi á líðan í kjölfarið.
Af framansögðu má ljóst vera að mataræði og næring getur verið mikilvægur þáttur þegar kemur að líðan flugmanna á meðan á flugi stendur og eftir lengri flug. Hollt mataræðið er einnig stór hluti af líkamlegu heilbrigði og mikilvægt til að koma í veg fyrir þyngaraukingu og bæta heilsu.
Ragnheiður Ásta Guðnadóttir er matvæla-og næringarfræðingur, M.Sc.